Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðlistar lengjast því aðgerðum verður hætt

Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Biðlistar munu lengjast, segir landlæknir, því valkvæðum verður hætt frá og með morgundeginum. Þeirra á meðal eru liðskiptaaðgerðir. Þau sem þurfa að fara í hlutastarf geta sótt um bætur á vef Vinnumálastofnunar.

Erfitt að skýra minni smit

Alls hafa 588 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi. Aðeins greindust 22 með kórónuveirusmit í gær eða 12% þeirra, sem sýni voru tekin af. Í fyrradag var hlutfallið 25%. 
 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir erfitt að skýra ástæðu fækkunarinnar: 
„Hvort þetta er eitthvað raunverulegt eða hvort þetta eru sveiflur á milli daga og ég hallast nú frekar að því.“

Af þeim sem hafa verið greindir er 51 batnað. Nú eru tæp 7000 manns í sóttkví og tæp 1,200 hafa lokið henni. Þrettán liggja inni á spítala.

Tölur um fjölda smita í börnum ekki í samræmi við umræðu

Sóttvarnalæknir segir að af 701 sýni úr börnum yngri en tíu ára hafi aðeins þrjú börn greinst með smit.

„Þannig að sú umræða sem hefur verið hér að undanförnu um mikið smit hjá börnum og smithættu í skólum hún virðist ekki raungerast í þessum tölum sem við erum að sjá núna hvað svo sem síðar verður,“ segir Þórólfur. 

Spá um alvarlega veika hækkar ekki eins mikið

Spálíkan vísindamanna miðað við gögn til og með gærdeginum gerir ráð fyrir að í lok apríl hafi líklega 2500 verið greindir með COVID-19 en tæp 6000 samkvæmt svartsýnustu spá. 

Hámarki verður náð í fyrstu vikum apríl og þá verða nær 2000 manns með smit en gæti náð tæpum 4500 í versta falli. Fyrri spá gerði ráð fyrir að það yrðu líklegast 600 en 1200 í versta falli. Líklegasti fjöldinn nú er meira en þrefalt meiri en í fyrri spá frá því á fimmtudag. 

Gert er ráð fyrir að 170 manns þurfi aðhlynningu á sjúkrahúsi en 400 samkvæmt svartsýnustu spá. Fjöldi alvarlega veikra hefur ekki hækkað eins mikið hlutfallslega. Það er af því að þeir, sem smitast hér, eru tiltölulega ungir, segir sóttvarnalæknir. 

Liðskiptaaðgerðum hætt

Öllum valkvæðum aðgerðum, sem geta beðið í átta vikur, verður hætt frá og með morgundeginum bæði utan og innan sjúkrahúsa. Sama á við um tannlækningar. Sérfræðilæknar og tannlæknar meta hverju á að sleppa. Ekki er vitað nú hve þetta eru margar aðgerðir. 

„Það er alveg ljóst að biðlistar munu lengjast því þetta eru aðgerðir eins og liðskipti. Þetta er allt til að létta álagi og til að forgangsraða þjónustu og þetta eru allar þjóðir að gera,“ segir Alma D. Möller landlæknir. 

Sótt um atvinnuleysisbætur á netinu

Þeir, sem þurfa að fara í hlutastarf út af faraldrinum, geta fengið bætur hjá Vinnumálastofnun og eins sjálfstætt starfandi og verktakar. Á vef Vinnumálastofnunar eru upplýsingar og umsókn. 

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að sjálf umsóknin sé ekki komin á vefinn: 

„En það er alveg að fara að bresta á þannig að vonandi á morgun í síðasta lagi. Allir sem að vettlingi geta valdið innan stofnunarinnar eru að afgreiða umsóknir þannig að við reynum að hraða þessu eins og kostur er.“

Vinnumálastofnun hefur ekki farið varhluta af varnaðaraðgerðum stjórnvalda. 

„Svona gerast hlutirnir í dag. Óvænt þá var komið útgöngubann á Hvammstanga. Og við erum 15 manns þar og eru á skrifstofu þar og annast greiðslu fæðingarorlofs.“

Stærstur hluti þeirra vinnur nú heima og þjónustan á ekki að raskast þótt henni seinki kannski aðeins. 

Hægt að senda ábendingu til Almannavarna

Ýmsar ábendingar hafa borist almannavörnum um þar sem hugsanlegt er að ekki sé farið að tilmælum yfirvalda. Flestar ábendingar berast um Facebooksíðu almannavarna, segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra: 

„Við fylgjum eftir slíku, bæði bara með því að hafa samband við einstaka staði, kanna málið, benda þeim á betri úrlausnir ef þeir eru ekki að sinna hlutunum nægjanlega vel og svo hefur það líka alveg komið fyrir að við höfum sent mannskap á staðinn til þess að ræða við fólk.“