Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðja farþega um að ganga ekki inn að framan

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Strætó bs. hefur ákveðið að ráðast í aðgerðir til að hefta útbreiðslu COVID-19. Frá og með deginum í dag verða framdyr allra strætisvagna lokaðar og farþegar eru beðnir um að ganga inn um mið- eða aftari dyr á vögnunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó bs.

Þá eru farþegar hvattir að greiða fargjöld með strætókorti eða strætóappi, og halda korti eða síma á lofti í átt að vagnstjóranum, en ganga ekki fram í vagninn til að staðfesta fargjald við vagnstjóra. Þeir viðskiptavinir sem greiða með peningum eða strætómiðum geti þó gengið fram í vagninn til að greiða fargjaldið.

„Þessar aðgerðir eru sambærilegar viðbrögðum annarra almenningssamgöngufyrirtækja á Norðurlöndum og verða í gildi samhliða samkomubanni. Þá hvetur Strætó alla viðskiptavini til þess að fylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir, vera meðvitaðir um smitleiðir veirunnar og ferðast ekki með almenningssamgöngum ef grunur leikur á smiti,“ segir í tilkynningunni.