Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bévítans veiran læddist bakdyramegin inn í landið

Mynd: Karl Sigtryggsson / Karl Sigtryggsson
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að rannsókn á uppruna kórónuveirunnar í almenningi hér heima sýni að þessi bévítans veira hafi læðst bakdyramegin inn í landið. Því veirugerðirnar komi frá öðrum löndum en mest vakt var á. Þá sýni rannsóknin tugi stökkbreytinga á veirunni.

Líka frá Englandi, Bandaríkjunum og Íran 

Íslensk erfðagreining hóf eins og kunnugt er skimun eftir kórónuveirunni hjá almenningi til þess að kanna hvort smit væri útbreiddara í þjóðfélaginu en í þeim sem hingað komu af skíðum á Ítalíu og í Austurríki. Skíðafólk með einkenni var greint á veirufræðideild Landspítalans. Íslensk erfðagreining greindi svo veirurnar með raðgreiningu á kjarnsýrunni RNA í veirunni. 
 
„Við sjáum það á skimunum sem við gerum í samfélaginu almennt að á sama tíma var veiran líklega að koma töluvert mikið með fólki sem kom frá Englandi,“ segir Kári Stefánsson. 

Varnir hér heima hafi eðlilega miðað við þau svæði þaðan sem vitað var að fólk væri að koma þ.e.a.s. úr Ölpunum.
 
„Á meðan við vorum að einbeita okkur að halda í skefjum sýkingum sem komu þaðan þá var þessi bévítans veira að smygla sér inn í landið bakdyramegin. Hún kom töluvert frá löndum sem við vissum ekki að væri að bera mikið smit.“ 

Þess vegna séu í kringum 1% þjóðarinnar sýkt af Covid-19 og stór hluti hefur komið frá öðrum stöðum en fyrr hafði verið talið. En það eru fleiri lönd en England: 

„Bandaríki Norður-Ameríku. Við erum meira að segja með einn einstakling sem að virðist hafa smitast af veirunni, sem hefur fundist í Íran.“ 

Átta flokkar og 40 stökkbreytingar

Kári segir að 40 stökkbreytingar hafi fundist á kórónuveirunni hér á landi. Ástæðan sé kannski sú að hvergi í heiminum hafi eins mikið verið raðgreint af veirunni eins og hér. Þessar stökkbreytingar gætu fundist í öðrum löndum þegar farið verður að raðgreina þar. Skipta megi veirugerðunum í átta flokka og hafi hver flokkur ákveðnar raðir af breytingingum. Engar vísbendingar séu þó enn um það að þessar gerðir hagi sér mismunandi í fólki. 

„Við höfum séð einstaklinga sem eru með tvö form af veirunni. Annars vegar stökkbreytt og hins vegar það sem ekki er stökkbreytt. Og síðan sjáum við að þeir sem hafa smitast frá þeim einstaklingi eru bara með stökkbreyttu veiruna sem gæti annað hvort verið af tilviljun einni saman eða að stökkbreytingin hefur gert þessa skepnu enn illvígari.“