Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Besti árangur íslenska kokkalandsliðsins

19.02.2020 - 16:43
Innlent · Matur
Mynd með færslu
 Mynd: Klúbbur matreiðslumanna
Íslenska kokkalandsliðið varð í þriðja sæti á Ólympíuleikum matreiðslumeistara sem fram fór í Stuttgart í Þýskalandi. Ísland hlaut gullverðlaun í báðum keppnisgreinum, líkt og Noregur og Svíþjóð sem urðu í sætunum fyrir ofan. Þriðja sætið er besti árangur íslenska landsliðsins á alþjóðlegu stórmóti, segir í fréttatilkynningu frá Klúbbi matreiðslumeistara. 

Haft er eftir Birni Braga Bragasyni, forseta Klúbbs matreiðslumeistara, að liðið hafi sýnt það á þessum Ólympíuleikum að það sé enginn eftirbátur annarra norðurlanda þrátt fyrir að búa ekki við sama stuðning. „Við erum í fremstu röð á heimsvísu og þar ætlum við að vera,“ er haft eftir Birni Braga.

Norska landsliðið varð í fyrsta sæti. Á vef Ólympíuleikanna segir að Norðmenn hafi sannfært dómnefndina með nákvæmni og listrænum hæfileikum. Svíar voru rétt á eftir þeim segir á vefnum. 

Keppt var í tveimur greinum, annars vegar í heitum mat og hins vegar þurfti að framreiða sjö rétta hátíðarkvöldverð fyrir tíu manna borð. Dómnefndin dæmdi svo meðal annars út frá bragði, útliti, samsetningu, hráefnisvali og fagmennsku við undirbúning og matargerð.

Í íslenska kokkalandsliðinu er: Sigurjón Bragi Bragason, þjálfari Kokkalandsliðsins, Björn Bragi Bragason, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, varaforseti Klúbbs matreiðslumeistara, Kristinn Gísli Jónsson, Snorri Victor Gylfason, Sindri Guðbrandur Sigurðsson, Snædís Xyza Mae Jónsdóttir, Ísak Darri Þorsteinsson, Jakob Zarioh Sifjarson Baldvinsson, Ísak Aron Ernuson og Chidapha Kruasaeng.

Auk þess fara með út aðstoðarmennirnir Ari Þór Gunnarsson, Aþena Þöll Gunnarsdóttir, Dagur Hrafn Rúnarsson, Guðmundur Halldór Bender, Kristján Örn Hansson, Valur Bergmunsson, Jón Þór Friðgeirsson, Ragnar Marinó Kjartansson og Ívar Kjartansson.