Berir bjútísnapparar og fyndnir fótboltaguttar

Mynd: RÚV / RÚV

Berir bjútísnapparar og fyndnir fótboltaguttar

07.06.2019 - 13:41
Staða kynjanna í fjölmiðlum hefur farið batnandi síðustu ár og kynjajafnréttis er betur gætt þegar kemur að dagskrárgerðarfólki og viðmælendum í sjónvarpsþáttum, útvarpsþáttum og fréttatímum. En áhrif samfélagsmiðla á fjölmiðlaumhverfið geta hins vegar ýtt undir staðalímyndir.

Fjölmiðlaheimurinn á Íslandi stækkaði um miðja síðustu öld þegar útvarpið og sjónvarpið litu dagsins ljós. Að einhverju leyti er um að ræða frekar karllægan tíma í sögunni þannig að stemmingin í fjölmiðlum tók mið af því. Þannig voru konur í mjög miklum minnihluta í viðtölum í sjónvarpsfréttum, rétt um 20% á fyrstu 20 árum sjónvarpsins. 

Undanfarin ár hefur hlutfallið verið smátt og smátt að lagast. Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV fyrir utan fréttir árið 2018 var til dæmis alveg jafnt, 50% karlar og 50% konur. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 63% karla og 37% konur. Að einhverju leyti er hægt að skýra þetta með hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og almennt í samfélaginu. Þórður Kristinsson, kynjafræðikennari, segir að það virðist vera erfitt fyrir fjölmiðla að fara yfir 1/3 hlutfallslega skiptingu karla og kvenna. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Það er líka munur á því sem karlar og konur eru fengin til að tala um. Konur eru fengnar til að að tala um hefðbundin kvennamál miklu oftar en um „harðari“ mál eins og pólitík og viðskipti. Þá segir Þórður að algengt sé að karlar hafi unnið þá frétt sem er sýnd fyrst í fréttatíma en konur þá frétt sem sýnd er síðust og fjallar um kisu sem fæddi kettlinga eða eitthvað álíka. 

Getur verið að samfélagsmiðlar hafi hér einhver áhrif á staðalímyndir kynjanna? Aron Már Ólafsson, ein stærsta samfélagsmiðlastjarna landins á síðustu árum, segist upplifa að gerðar séu ólíkar kröfur til kynjanna á samfélagsmiðlum. 

„Konur eiga að vera sexý og karlar eiga að vera fyndnir eða massaðir. Við eigum að taka okkur alvarlega eða vera sprelligosar en stelpur eiga að vera á rassinum og sýna brjóstin og sæta andlitið.“

Hann segir sömuleiðis að þetta sé orðið afar skaðlegt og mun ýktara en það var áður og það séu margir sem séu að leitast eftir því að ímynd þeirra sé á einhvern ákveðinn hátt, sem smitar mikið út frá sér. „Þetta getur bara verið mjög hættulegt og rosalega eitrað, ákveðnir hlutar af þessu.“

Við erum því sannarlega komin frekar langt frá stöðunni eins og hún var árið 1966 þegar það var algjört undantekningartilfelli að tekið væri viðtal við konur. Valdið í dag gæti hins vegar verið að færast yfir í hendur einstaklinga í gegnum samfélagsmiðla, sem eru jú í sjálfu sér eins konar fjölmiðlar. En samfélagsmiðlar geta ýkt staðalímyndir kynjanna þar sem sífellt fleiri berir bjútísnapparar og fyndnir fótboltastrákar koma upp á yfirborðið. 

Fjallað var um kyn og fjölmiðla í hlaðvarpinu Allskyns þar sem Guðmundur Felixson og Hafdís Helga Helgadóttir skoða alls kyns störf, skoða hvers kyns þau eru og hvort kyn skiptir þar einhverju máli. Þú getur hlustað á þátt vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan en hann má einnig finna í öllum helstu hlaðvarpsveitum, í spilara RÚV og RÚV-appinu. 

Tengdar fréttir

Kyn getur skipt máli í verkefnum lögreglunnar

Tónlist

Karlrapparar á Íslandi vaxa eins og lúpína