Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bergið í Reynisfjalli enn mjög óstöðugt

23.08.2019 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi - Facebook
Enn er töluverð hætta á berghruni við Reynisfjöru og verður austurhluti fjörunnar áfram lokaður. Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar er bergið í Reynisfjalli, vestan við sárið þar sem skriðan féll á þriðjudag, mjög óstöðugt.

Sprungur í klettinum

Sveinn Brynjólfsson, á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands, segir að fundað hafi verið í miðri viku. Þar hafi verið farið yfir myndir og tjón sem varð á Reynisfjalli. Sprungur sjáist í klettinum vestan við sárið. „Það sést að það er greinilegur óstöðugleiki í berginu þarna áfram. Við teljum mjög hættulegt að vera þarna núna.“

Sveinn segir að ofanflóðavaktin og almannavarnir séu sammála um að ekki sé ástæða til að opna svæðið strax. Þau vilji sjá hvort ástandið breytist næstu daga. Sveinn segir að ekki sé hægt að minnka hættuna með öðru en að loka svæðinu. Þetta sé óstöðugt berg. Þá vakti Veðurstofan svæðið ekki með mælitækjum eða öðru slíku heldur fái upplýsingar frá heimamönnum og starfsmanni Veðurstofunnar sem býr á staðnum. 

Svæðið áfram lokað

Grjóthrun varð í fjörunni á mánudag þar sem maður höfuðkúpubrotnaði og barn slasaðist. Í kjölfarið var þeim hluta fjörunnar lokað og er hann enn lokaður. Á þriðjudagsmorgun féll svo önnur skriða úr fjallinu úr sextíu til hundrað metra hæð. Skriðan var um hundrað metra breið og hljóp um fimmtíu metra frá rótum fjallsins og út í sjó. Á vef Veðurstofunnar segir að mikil mildi sé að enginn hafi verið á staðnum þegar skriðan féll. 

Í dag funduðu rekstraraðilar Svörtu fjörunnar, hluti landeigenda og sveitarstjóri Mýrdalshrepps með fulltrúum lögreglunnar á Suðurlandi, veðurstofunnar og Vegagerðarinnar. Þar var ákveðið að svæðið yrði áfram lokað og vaktað. Unnið yrði að útfærslu á lokun á þessum hluta fjörunnar.