
Bera saman gögn um mikilvægi skjálftahrina
Hátt í 50 vísindamenn taka þátt í þessari þriggja daga ráðstefnu en markmiðið er að fá yfirlit yfir nýjustu rannsóknir á jarðskjálftum.
Eitt af því sem fær sérstaka athygli eru nýlegar skjálftahrinur. Þannig voru sterkar hrinur 2012 og 2013, öflug hrina austan Grímseyjar í byrjun síðasta árs og nú síðast í mars og apríl í nágrenni Kópaskers, þegar mældust nokkur þúsund skjálftar.
Skjálftahrinur gætu létt af spennu
Sigurjón Jónsson jarðeðlisfræðingur segir að menn velti nú fyrir sér hvort þessar hrinur leysi úr uppsafnaðri spennu á svæðinu, enda eru meira en 40 ár frá síðasta stóra skjálfta á Norðurlandi, sem er sögulega langur tími. „Og það er ýmislegt í þessum hrinum sem bendir til þess, að þótt skjálftarnir séu allir litlir, þá sé hugsanlega einhver hægfara hreyfing samhliða sem væri þá að leysa út talsvert mikla spennu,“ segir Sigurjón. En hvað þýðir það? „Það væru mjög góðar fréttir vegna þess að það myndi þá þýða að við þyrftum færri stóra skjálfta til að leysa út þessa spennu sem plötuhreyfingarnar eru að safna saman hægt og rólega,“ segir hann.
Skiptast á skoðunum á ráðstefnunni
Þetta komi þó aldrei í veg fyrir stóra skjálfta, en reynsla frá öðrum löndum sýni að hægfara hreyfingar geti fylgt skjálftahrinum og dregið úr spennu. Þetta er þó ekki staðfest fyrir Norðurland og segir Sigurjón að gögn vísindamanna á ráðstefnunni stangist að sumu leyti á. „Sum gögnin virðast sýna að það sé ekki slík hægfara hreyfing hér en önnur gögn benda til þess að það geti vel verið. Þannig að við erum, ég ætla ekki að segja að deila, en við erum að skiptast á skoðunum og bera saman gögn og reyna að finna út hversu mikilvægar þessar hrinur eru í þessu stóra samhengi,“ segir Sigurjón.