Bera kennsl á bein úr manni sem hvarf fyrir 5 árum

04.03.2020 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Sænskir réttarmeinafræðingar hafa borið kennsl á upphandleggsbein sem flæktist í veiðarfæri sjómanna sem voru við veiðar á Selvogsgrunni fyrir tæpum þremur árum. Í ljós kom að líkamsleifarnar eru af Guðmundi Geir Sveinssyni sem talið er að fallið hafi í Ölfusá á annan dag jóla 2015. Guðmundur Geir var fæddur 13. apríl 1974 og búsettur á Selfossi. Mál föður Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi alþingismanns, varð til þess að lögreglan lét rannsaka upphandleggsbeinið betur.

Í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að sterkar vísbendingar hafi verið um að Guðmundur Geir hafi fallið í Ölfusá við kirkjugarð Selfoss. „Leitin að honum reyndist árangurslaus og var hætt en allar götur síðan hafa menn svipast um eftir því hvort eitthvað fyndist sem skýrt gæti hvarf hans,“ segir í tilkynningunni.

Það var svo í maí fyrir tæpum þremur árum að sjómenn á snurvoðarbát fengu upphandleggsbein úr manni í veiðarfærin þar sem þeir voru við veiðar á Selvogsgrunni. Geislakolsaldursgreining gaf þá niðurstöðu að beinið væri úr manni sem líklega hefði látist á árabilinu 2004 til 2007. Þar með stöðvaðist rannsóknin.

Mál föður Birgittu kveikjan að nýrri rannsókn

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að þegar í ljós kom, að geislakolsmæling gaf ranga niðurstöðu á líkamsleifum manns sem síðar kom í ljós að var faðir Birgittu, hafi verið ákveðið að rannsaka upphandleggsbeinið frekar. Í janúar síðastliðnum var greint frá því að líkamsleifar föður Birgittu, sem hvarf fyrir rúmum þrjátíu árum, væru fundnar.

Sýni úr upphandleggsbeininu sem fannst á Selvogsgrunni voru send til Svíþjóðar og réttarmeinafræðingar þar hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að líkamsleifarnar hafi tilheyrt Guðmundi Geir. „Fundað hefur verið með aðstandendum um þessa niðurstöðu og verða þessar jarðnesku leifar afhentar þeim á allra næstu dögum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Safna DNA-sýnum vegna gamalla mannshvarfa

Oddur segir að lögreglan á Suðurlandi skrái hjá sér nákvæma útlitslýsingu og geymi tannlæknaskýrslur þeirra sem hverfa. Þá sé tekið DNA-sýni úr aðstandendum. Þetta verklag hafi verið viðhaft í um áratug.

Á síðustu mánuðum hafi lögreglan haft samband við aðstandendur nokkurra þeirra sem horfið hafa fyrir meira en áratug og aflað DNA-sýna. Oftast sé tekið sýni úr einum, yfirleitt systkini. Eftir að greint var frá kennslum á líkamsleifum föður Birgittu hafi margir aðstandendur horfins fólks haft samband við lögregluna að fyrra bragði og óskað eftir að gefa DNA-sýni.

Þó nokkrar fréttir hafa verið sagðar af því á undanförnum árum að fólk hafi farið í Ölfusá. Oddur segir að lík flestra hafi rekið upp á árbakkana. Með máli Guðmundar Geirs sé í fyrsta skipti staðfest að áin hafi borið fólk alla leið út í sjó. Selvogsgrunn er við Vogsósa vestan við Þorlákshöfn.  

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi