„Ber svolítið á milli“ borgarinnar og Eflingar

05.02.2020 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar segir kröfur Eflingar aldrei ná fram að ganga, til dæmis gagnvart lærðum leikskólakennurum. Ef ekki semst á sáttafundi í dag, brestur á sólarhrings verkfall á miðnætti.

Harpa segist vera hóflega bjartsýn fyrir fundinum. „Það ber svolítið í milli, við skulum bara orða það þannig. Ef við sjáum ómöguleika í því að ganga frá kjarasamningi við Eflingu út frá öðrum hópum þá stoðar verkfall ekkert,“ segir Harpa.

Bent hefur verið á að eins konar höfrungahlaup í launakjörum sé óumflýjanlegt ef borgin gengur að kröfum Eflingar. Eflingu stendur til boða það sem önnur félög hafa samið um.

Á hverju stranda viðræðurnar? „Það strandar á því að Efling gerir kröfu um hækkanir sem eru umfram lífskjarasamninginn. Auk þess að þeir sem að eru á hærri launum, við getum nefnt stóra kvennahópa hjá okkur, leikskólakennara sem dæmi. - þeir væru að fá 50 þúsund króna minni hækkun á sína taxta. Þetta er eitthvað sem við metum sem svo að myndi aldrei ná fram að ganga.“

Hópur sem fulltrúar stéttarfélaganna og vinnuveitenda eiga sæti í, hefur unnið hörðum höndum undanfarnar vikur að tillögum um styttingu vaktavinnuvikunnar. Harpa á sæti í þeim hópi. „Það hefur verið ófrávíkjanleg krafa að hálfu stéttarfélagsins að við klárum þá vinnu. Við erum nokkuð bjartsýn á að þessu sé að miða áfram.“

Meira en helmingur leikskólabarna fyrir áhrifum

Ef ekkert miðar á fundi hjá sáttasemjara í dag hefst næsta verkfall Eflingar á miðnætti og stendur í sólarhring. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að gert sé ráð fyrir að verkföllin hafi áhrif á meira en helming leikskólabarna í borginni eða um 3500 börn. Þeim börnum sem fá vistun verður skipt upp í hópa, annar verður fyrir hádegi og hinn eftir hádegi. Þá raskast matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar. 

Verkfallið mun hafa áhrif á um 1650 notendur velferðarþjónustu þrátt fyrir undanþágur frá verkfallsaðgerðum. Í næstu viku eru þrír verkfallsdagar áformaðir.

Uppfært: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi