Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ber ekki að kalla til túlk í viðkvæmum málum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sýslumanni ber ekki að kalla til eða útvega fólki, sem ekki talar íslensku, túlk. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að hún hafi haft spurnir af málum þar sem erlendar konur hafa gefið frá sér forsjá barna sinna og afsalað sér eignum þar sem þær skildu ekki hvað fór fram hjá sýslumanni.

Skylda stjórnvalda takmarkist við samskipti á íslensku

Hvergi í lögum er kveðið á um skyldu sýslumanns til að kalla til eða útvega fólki, sem ekki talar íslensku, túlk þeim að kostnaðarlausu þegar fólk leitar til embættisins svo sem í sáttameðferð vegna skilnaðar, sambúðarslita, umgengnismála og forsjármála. Í svari frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurnum fréttastofu segir að auk þess hafi embættið ekki fjármuni til að mæta slíkum útgjöldum. 

Ef einstaklingur þurfi á túlki að halda þarf hann því sjálfur að útvega túlk og greiða fyrir þjónustuna. Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til sýslumannsins í Reykjavík frá 2001 segir að ellegar verði einstaklingurinn að sæta því að lögmætur réttur hans til leiðbeiningar stjórnvalds, andmæla, birtingar og rökstuðnings gagnist honum ekki.

Skylda stjórnvalda takmarkist við samskipti á íslensku, það megi gera málshefjendum ljóst að ekki sé tekið við erindum á erlendum tungumálum nema svo vel vilji til að starfsmenn embættisins hafi þau á valdi sínu, segir í bréfinu. 

Fréttastofa væntir svara frá dómsmálaráðuneytinu, við því hvort þessi framkvæmd standi enn, en sýslumannsembættin heyra undir ráðuneytið.

Túlkaþjónusta tryggi réttindi fólks

Margrét, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, telur þó að stjórnvöldum sé skylt að kalla til túlk þegar einstaklingar tali ekki íslensku. Stjórnvöld þurfi að gæta að réttindum fólks og tryggja að rannsóknarreglu, leiðbeininga- og upplýsingaskyldu sé fylgt og gætt sé að andmælarétti. Því megi leiða af ákvæðum stjórnsýslulaga að þessi skylda hvíli á stjórnvöldum.

Þrátt fyrir að ekki sé beint ákvæði í lögum sem kveði á um þessa skyldu stjórnvalda í Danmörku og Noregi er það þó túlkað þannig í framkvæmd að kalla skuli til túlk þegar þess þarf, segir Margrét. Þetta skuli gert svo réttindi fólks séu tryggð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sagði í bréfi til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 21. febrúar 2018 að það kunni að vera í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti ef komið er til móts við einstaklinga á tungumáli sem þeir skilji.

Auk þess sé mælt fyrir um það í lögum um íslenska tungu að stjórnvöld skuli leitast við að tryggja að sá sem ekki skilji íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna. Þá segi í málstefnu Stjórnarráðs Íslands að tryggja skuli réttindi manna af erlendum uppruna í samskiptum við stjórnarráðið með því að bjóða eftir föngum túlkaþjónustu, segir í bréfi umboðsmanns.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjámynd - Alþingi

Rétt að kalla til túlk í undantekningartilvikum

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir að í undantekningartilvikum skuli sýslumenn kalla til túlk á vegum embættisins, svo sem í viðkvæmum málaflokkum, eða þegar harkalegt hefur þótt að láta viðkomandi verða sér úti um túlk.

Í svari frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurnum fréttastofu kemur fram að það sé kunnugt að sýslumenn hafi sýnt fólki ákveðinn sveigjanleika og útvegað túlk þótt lagaskylda hafi ekki verið fyrir hendi. Það séu þó engar skráðar reglur um það hvenær það skuli gert og hvenær mál geti talist undantekningartilvik. Samkvæmt svari sýslumanns fer það eftir mati hvers sérfræðings embættisins.

Oft aðstoða vinir eða fjölskyldumeðlimir við túlkun

Í svarinu segir að viðtal geti ekki farið fram ef einstaklingur geti ekki gert sig nægilega skiljanlegan eða skilur ekki það sem starfsmaður þarf að koma á framfæri við hann. Þá þurfi hann að útvega túlk og koma aftur.

Sáttameðferð geti farið fram á íslensku eða ensku eða á öðru tungumáli sem sáttamaður og báðir foreldrar hafa á valdi sínu, segir í svari sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. 

Oft séu það vinir eða fjölskyldumeðlimir sem aðstoði við túlkun, en það gefi þó auga leið að heppilegra sé að fagmenn í túlkun annist þjónustuna, segir í svarinu. Ásdís Ármannsdóttir, sýslumaðurinn á Suðurnesjum, segir að ekki séu gerðar kröfur um það hverjir túlki og þeir þurfi ekki að vera löggiltir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fjárhagslega íþyngjandi að nýta sér túlkaþjónustu

Angelique Kelly, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, segir að oft séu þetta einstaklingar sem hafi ekki mikið á milli handanna og þekki ekki vel réttindi sín hér á landi. Þá viti fólk oft ekki að það geti pantað túlk og eigi þess utan ekki fjármagn til þess. Oft séu þetta konur í erfiðum aðstæðum sem sitji undir hótunum frá maka. 

Í rannsókn Jennýar Kristínar Valberg til meistaraprófs í kynjafræði segir að það geti verið fjárhagslega íþyngjandi fyrir fólk að verða sér úti um túlka, sér í lagi fólk af erlendum uppruna sem oft hafi minni ráðstöfunartekjur. Þá standi konur í ofbeldissamböndum sérstaklega illa vegna þessa. Oft vilji fólk flýta ferlinu og þykist því kannski skilja hvað fer fram. 

Fréttastofa setti sig í samband við nokkrar túlkaþjónustur vegna málsins. Enginn vildi koma fram undir nafni en þær upplýsingar fengust að einstaklingar í þessari stöðu væru oft illa upplýstir um hvar væri hægt að panta sér og verða sér úti um túlk. Það geti verið stórkostlegt mál bara að hafa uppi á þjónustunni og verða sér úti um hana þegar maður skilji ekki tungumálið og hafi ekki sterkt bakland. 

Þá geti það reynst einstaklingum dýrt að verða sér úti um túlk. Hins vegar séu túlkaþjónustur með rammasamninga við ríkið sem þýði að þjónustan bjóðist sýslumönnum á talsvert lægra verði en hinum almenna viðskiptavini sem ekki bjóðast afsláttarkjör. 

Margrét segir að margir leiti til þeirra á Mannréttindaskrifstofu til að fá útskýringar á gögnum og skjölum sem þau hafi fengið hjá sýslumönnum en skilji ekki. Auk þess sé það oft stór hluti af þeirra starfi að leiðrétta rangar upplýsingar sem konur fái, til að mynda frá maka. Til dæmis hafi konum oft verið talin trú um það að meginreglan á Íslandi sé þannig að feður fái börnin við skilnað og svo framvegis. Þær séu í verri stöðu meðal annars af þessum ástæðum, segir Margrét.

Hún tók þátt í gerð könnunar árið 2012 á því hversu oft sameiginleg forsjá sé niðurstaðan í forsjármálum þegar báðir foreldrar eru íslenskir annars vegar og hins vegar þegar um börn innflytjenda er að ræða, eða þegar annað foreldri er af erlendum uppruna. 

Margrét segir að meginreglan hér á landi sé sameiginleg forsjá barna. Það sé talið barninu fyrir bestu. Rannsóknin hafi leitt í ljós að börn af íslenskum uppruna voru líklegri en önnur til að vera í sameiginlegri forsjá. Það er algengara að brugðið sé frá meginreglunni þegar annað foreldrið er af erlendum uppruna. Þá er líklegra að hið íslenska foreldri fari með forsjá. Margrét segir að þetta þyrfti að rannsaka betur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hefur farið illa þegar fólk skilur ekki hvað fer fram

Angelique segir að hún hafi oft heyrt í gegnum tíðina að konur af erlendum uppruna sem kannski séu að skilja eða í forræðismálum, skilji ekki hvað fari fram hjá sýslumanni. Mál hafi farið illa vegna þessa.

Margrét, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu, segir að hún hafi haft spurnir af því að konur hafi gefið frá sér forsjá barna sinna undir slíkum kringumstæðum. Þá hafi kona afsalað sér öllum eignum þar sem hún vissi ekki að hún ætti tilkall til helmings þeirra. 

Í bréfi frá Umboðsmanni Alþingis segir að það séu dæmi um að einstaklingar hafi ekki kært ákvörðun innan kærufrests, þar sem úrlausnin og leiðbeiningar um kæruna hafi eingöngu verið á íslensku, með þeim afleiðingum að kærunni var vísað frá.

Hjá þeim túlkaþjónustum sem fréttastofa ræddi við sögðust túlkar hafa boðið þjónustu sína á kostnaðarverði eða endurgjaldslaust vegna alvarleika mála. 

Fólk megi ekki skrifa undir án þess að skilja hvað stendur

Páll Sigurðsson, prófessor og höfundur bókarinnar Samningaréttur, segir að það sé ótækt að báðir aðilar skilji ekki hvað fari fram hjá sýslumanni. Það verði að ganga úr skugga um að báðir skilji það sem fari fram og skrifi ekki undir án þess að það sé skýrt. Það sé augljóst mál. Hins vegar sé það annað mál hver eigi að greiða fyrir túlkaþjónustuna.

Páll segir ekki útilokað að fá samningi hnekkt í þeim tilvikum þar sem einstaklingur hefur skrifað undir án þess að skilja það sem standi. Það sé mögulega hægt að láta reyna á samningsgildi slíks samnings fyrir dómstólum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Vilja sjá breytingar

Margrét segir að fyrirkomulagið hér á landi sé bagalegt. Þetta þýði að ef manneskja tali ekki íslensku þá standi hún ekki jafnfætis þeim sem það gerir.

Angelique segir að þau hjá samtökunum vilji sjá að þessu verði breytt og túlkaþjónusta í boði fyrir þá sem þurfa, þeim að kostnaðarlausu.

„Það væri ákjósanlegt að greiða túlkaþjónustu í fleiri tilvikum en gert er. Það er mikilvægt að öllum nýtist þjónusta sýslumanns og sýslumaður þarf að uppfylla skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum, jafnt gagnvart þeim sem ekki mæla á íslensku eða ensku. Æskilegt væri að skyldur embættisins hvað varðar greiðslu á þjónustu túlka væru skýrari,“ segir í svari frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.