
Bentu á annmarkann án árangurs
Hæstiréttur dæmdi í morgun að valdframsal til ráðherra væri andstætt stjórnarskrá. Ríkissjóði var með dómi Hæstaréttar gert að greiða Grímsnes- og Grafningshreppi 234 milljónir auk vaxta.
Málið snýst um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Grímsnes- og Grafningshreppur fékk ekki úr sjóðnum árin 2013 til 16 því heildartekjur sveitarfélagsins voru 50% umfram landsmeðaltal þessi ár.
Ráðherra tók fram fyrir hendur Alþingis
Framlagið var fellt niður því ráðherra mátti samkvæmt 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga setja reglugerð þar sem framlög til tekjuhárra sveitarfélaga voru felld niður.
Fimm sveitarfélög lentu í niðurskurðinum en þau eru auk Grímsness- og Grafningshrepps, Hvalfjarðarsveit, Fljótsdalshreppur, Ásahreppur og Skorradalshreppur. Öll fóru þau með mál sín fyrir dóm og töpuðu í héraði og Landsrétti og áfrýjuðu því til Hæstaréttar. Dómurinn í dag á við um öll sveitarfélögin.
„Ráðherra var þarna að skerða tekjustofna þessara fimm sveitarfélaga sem stjórnarskráin segir að einungis Alþingi geti gert,“ segir Óskar Sigurðsson lögmaður sveitarfélaganna.
78. grein stjórnarskrárinnar segir að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum. Í þessu tilfelli tók ráðherrann, það er framkvæmdavaldið, ákvörðun sem löggjafarvaldinu bar að gera.
Alþingi samþykkti lögin þótt bent væri á gallann
En er ekki undarlegt að á sínum tíma þegar þetta er sett inn í lög um tekjustofna sveitarfélaga, þessi grein að ráðherra megi, hefðu ekki einhverjar bjöllur átt að hringja þar að það væri andstætt stjórnarskránni?
„Jú, þessi sömu sveitarfélög gerðu einmitt athugasemdir, þarna í kringum 2012, og bentu á þennan annmarka sem var þarna á ferðinni.“
En Alþingi hefur látið þetta rúlla í gegn?
„Já, þeir gerðu það.“
Hver er heildarfjárhæðin?
„Í þessum dómsmálum er höfuðstóllinn samtals í kringum 700 milljónir og síðan bætast þrjú ár til viðbótar sem ekki eru inni í dómsmálunum. Þannig að svona heildarkrafan gæti alveg numið um og yfir einum milljarði króna,“ segir Óskar.
Ráðuneytið fer yfir dóminn
Einn af fjórum dómurum Hæstaréttar skilaði sératkvæði og vildi sýkna ríkið. Sveitarstjórnarráðherra gaf ekki kost á viðtali í dag af því verið sé að fara yfir dóminn í ráðuneytinu.