Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bensínskömmtun í Portúgal

12.08.2019 - 10:33
epa07769540 Members of the National Republican Guard (GNR) gendarmerie force escort a truck carrying fuel outside the headquarters of the Logistics Fuel Company (CLC) in Aveiras de Cima, Portugal, 12 August 2019, during the indefinite strike of dangerous goods drivers. The Portuguese government has decreed minimum services between 50 percent and 100 percent, and declared an energy crisis. The move implies 'exceptional measures' to minimize the impact of the strike of dangerous goods drivers in order to guarantee the supply of essential services such as security forces and medical emergency.  EPA-EFE/CARLOS BARROSO
Eldsneyti flutt í lögreglufylgd í Portúgal í morgun. Mynd: EPA-EFE - LUSA
Eldsneyti á bifreiðar er skammtað í Portúgal vegna verkfalls eldsneytisflutningamanna. Sumar bensínstöðvar landsins eru búnar með allt eldsneyti.

Eldsneytisflutningamenn lögðu niður vinnu í apríl, en hófu aftur störf eftir fjögurra daga verkfall þegar samkomulag náðist um hækkun launa. Þeir kröfðust frekari launahækkana og ákváðu að fara aftur í verkfall þegar viðræður við viðsemjendur fóru út um þúfur í fyrradag.

Á föstudag, þegar ljóst var í hvað stefndi, gerðu stjórnvöld ráðstafanir til að tryggja að sjúkrahús, hafnir, flugvellir og aðrir forgangsnotendur fengju eldsneyti í verkfallinu. Verður eldsneyti til þessara staða flutt í lögreglufylgd, en verkalýðsfélög segja það verkfallsbrot.

Margir bifreiðareigendur fóru að hamstra bensín í síðustu viku og ákvað stjórnin fyrir helgi að hefja skömmtun á bensíni og dísilolíu á bensínstöðvum frá deginum í dag til 21. þessa mánaðar. Fólksbílar fengju 15-25 lítra, en flutningabílar 100 lítra. Á sumum bensínstöðvum var allt eldsneyti uppurið strax í morgun. 

Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals, útilokar ekki að bregðast við með lagasetningu og skylda eldsneytisflutningamenn til að hefja vinnu á ný.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV