Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Benedikt Gröndal látinn

20.07.2010 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Benedikt Gröndal, fyrrverandi forsætisráðherra, formaður Alþýðuflokksins og sendiherra andaðist í morgun 86 ára að aldri.

Benedikt fæddist á Hvilft í Önundarfirði þann 7. júlí árið 1924. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943 og BA-prófi með sögu sem aðalgrein frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 1946. Þá stundaði hann framhaldsnám í Oxford á Englandi sumarið 1947. Hann kvæntist Heidi Gröndal, bókaverði og eignuðust þau þrjá syni.

Samhliða  námi starfaði Benedikt sem íþróttafréttaritari Alþýðublaðsins og varð síðar fréttastjóri á blaðinu. Hann settist í ritstjórastólinn árið 1956 og stýrði blaðinu í 10 ár. Þá starfaði hann einnig sem forstöðumaður fræðsludeildar Sambands íslenskra samvinnufélaga. Hann sat í bæjarráði Reykjavíkur um fjögurra ára skeið og tók að sér stjórnar- og nefndarsetu á ýmsum sviðum. Hann sat í útvarpsráði um árabil og var einn af brautryðjendum íslensks sjónvarps. Hann var kjörinn þingmaður árið 1956 og varð síðar formaður Alþýðuflokksins. Árið 1978 varð hann utanríkisráðherra og síðar gegndi hann embætti forsætis- og utanríkisráðherra til ársins 1980 en hann var forsætisráðherra í 116 daga í minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sem var varin vantrausti af þingflokki Sjálfstæðisflokks. Seinna varð hann sendiherra í Svíþjóð, í Austurlöndum og síðast hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Þegar Benedikt var beðinn um að líta til baka yfir langan og viðburðaríkan stjórnmálaferil vegna umfjöllunar um hann í bókinni Forsætisráðherrar Íslands sagði hann. „Ég leit aldrei á pólitík sem augnabliksviðfangsefni heldur langtímaþróun. Ég horfi um öxl sáttur við Guð og menn."