Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Benedikt Bogason stefnir Jóni Steinari

09.11.2017 - 18:52
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Benedikt Bogason hæstaréttardómari, hefur stefnt Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi hæstaréttardómara, fyrir meiðyrði. Jón Steinar fullyrðir í nýrri bók að Hæstiréttur hafi framið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra. Benedikt krefst þess að fimm ummæli í bókinni verði dæmd dauð og ómerk.

Í síðustu viku kom út bókin Með lognið í fangið - um afglöp Hæstaréttar eftir hrun, eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómara við réttinn. Í bókinni gagnrýnir Jón Steinar Hæstarétt harðlega og fullyrðir að dómurinn hafi brugðist þjóðinni við meðferð dómsmála í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Jón Steinar segir að almenningur hafi krafist refsinga í kjölfar hrunsins og að dómarar hafi látið undan með því að komast að því sem hann kallar „æskilegar" niðurstöður.

Jón Steinar tekur dæmi af máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, sem hlaut tveggja ára fangelsisdóm í Hæstarétti árið 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Skömmu fyrir fall bankanna seldi Baldur bréf sem hann átti í Landsbankanum fyrir um 192 milljónir króna. Héraðsdómur og síðar Hæstiréttur töldu að með því hafi Baldur gerst sekur um innherjasvik.

„Dráp af ásettu ráði“

„Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð,“ segir Jón Steinar meðal annars í bók sinni. Felldur hafi verið dómur sem dómararnir hafi vitað, eða hlotið að vita, að hafi ekki staðist hlutlausa lagaframkvæmd. Þá fullyrðir Jón Steinar að upplýsingarnar, sem Baldur bjó yfir, hafi ekki verið innherjaupplýsingar. Þess má geta að Jón Steinar var einn sex dómara við hæstarétt sem lýstu sig vanhæfa til að dæma í málinu.

Benedikt Bogason, sem var einn dómara í málinu, hefur nú stefnt Jóni Steinari vegna ummælanna, og krefst ómerkingar á því sem hann kallar ærumeiðandi ummæli. Jón Steinar ásaki hann og meirihluta dómara í málinu um dómsmorð á Baldri, en varla er hægt að saka dómara við æðsta dómstól þjóðarinnar um alvarlegra brot í starfi.

„Dómsmorð er... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu,“ skrifar Jón Steinar í bók sinni og vísar þar til gamallar skilgreiningar á hugtakinu.

Þar segir enn fremur að með orðinu dómsmorð sé átt við það þegar þau lögmál sem gilda um vandaðan málarekstur séu brotin til þess að komast megi að rangri niðurstöðu.

Benedikt krefst þess að fimm ummæli í bókinni verði dæmd dauð og ómerk. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudaginn.

Benedikt ætlar ekki að tjá sig við fjölmiðla á meðan málið er rekið fyrir dómstólum.