Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Benda á meiri áhrif Hvalárvirkjunar á óbyggð víðerni

26.11.2019 - 19:27
Mynd: RÚV / RÚV
Stafræn kortlagning erlendra vísindamanna á óbyggðum víðernum Ófeigsfjarðarheiðar bendir til þess að Hvalárvirkjun muni hafa meiri áhrif á víðerni svæðisins en áður var talið.

Náttúrusetrið Wildland Research Institute við háskólann í Leeds á Englandi annaðist stafræna kortlagningu svæðisins síðasta sumar, að beiðni náttúruverndarsamtakana ÓFEIGAR. Markmiðið var að meta heildaráhrif Hvalárvirkjunar á víðerni Ófeigsfjarðarheiðar og nágrennis, en fyrirhugað er að virkja Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará til raforkuframleiðslu. 

„Við notuðum sömu aðferðarfræði og við höfum gert fyrir skosk stjórnvöld, heimfærðum hana yfir á íslenska náttúru og aðstæður og gerðum fyrir/eftir kort af svæðinu. Það sýnir áhrifin sem fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefði í för með sér,“ segir Steve Carver, lektor við háskólann í Leeds.

Niðurstöður vísindamannanna benda til þess að með framkvæmdum og mannvirkjum Hvalárvirkjunar yrði ósnortið víðerni Ófeigsfjarðarheiðar 45-48 prósentum minna. Carver segir að þessi áhrif, sem komu í ljós með stafrænni kortlagningu, hafi vantað í fyrri rannsóknir á áhrifum virkjunar á svæðinu.

„Við höfum unnið þá vinnu fyrir þá, til þess að sýna hver áhrifin yrðu. Það kemur á ekki á óvart hvað áhrifin væru mikil. Annað sem er mikilvægt að hafa í huga, er að ef horft er á ósnortin víðerni Evrópu þá er Ísland með 43% af villtasta 1% í álfunni,“ segir Carver.

Rannsakendur hafa þegar unnið skýrslu sem verður afhent stjórnvöldum, en niðurstöðurnar voru kynntar í Þjóðminjasafninu í dag. Carver segir að þær hafi ekki komið á óvart.

„Það er ekki hægt að ráðast í framkvæmdir eins og þessar án þess að hafa varanleg áhrif á landið, meðal annars með veglagningu og öðrum framkvæmdum. Það hefur áhrif á ár og læki og ásýnd svæðisins í heild. Það er ekki hægt að komast hjá því.“