Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Beita grísum á kerfil í Bolungarvík

14.06.2019 - 20:53
Mynd: RÚV / RÚV
Vonandi ekki bara skemmtilegt heldur líka árangursríkt, segir bæjarstjóri Bolungarvíkur. Tveir grísir hafa verið fengnir til bæjarins til að beita á kerfilinn. 

Úr Borgarfirði í Bolungarvík

Tveir grísir úr Borgarfirði hafa fengið nýtt heimili í útjaðri byggðar í Bolungarvík. Þeir gegna lykilhlutverki í umhverfisátaki bæjarins. „Kerfill er vandamál hérna eins og víða og við erum bara að leita allra leiða og þetta vonandi sjálfbær leið til að losna við kerfilinn,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur. „Við erum að vona að þeir éti kerfilinn fyrst og fremst - sem ég sé ekki betur en þeir séu að gera akkúrat núna.“

Éti kerfil og róti upp rótunum

Vonast er til þess að svínin láti ekki staðar numið þegar þau eru búin með kerfilinn heldur róti líka upp rótunum. „Svín eru ótrúleg dýr, það er ekkert sem þau geta ekki gert. Þau éta kerfilinn, taka ræturnar og skilja þetta eftir í moldarsvaði sem er þá tilbúin í einhverskonar ræktun,“ segir Jón Páll.

Vonast eftir skemmtun og árangri

Og þá verður útbúinn nýr reitur fyrir svínin. „Við ætlum að vera með Náttúrustofu Vestfjarða til að skoða þetta með okkur til að sjá hver árangurinn af þessu verður. Þetta er ekki bara skemmtilegt heldur vonandi líka árangursríkt,“ segir Jón Páll.

Auglýst eftir svínahirði

Starfsfólk bæjarins sér nú um svínin en bærinn hefur auglýst eftir sérstökum svínahirði en ljóst er að margir koma til með að líta eftir svínunum. Þeir Sigurgeir, Guðbjörn og Gunnar kom til dæmis við til að kíkja á grísina.  Hvernig líst ykkur á þetta? „Mér finnst þetta bara gott því að þau taka kerfilinn og hann fer illa með náttúruna,“ segir Sigurgeir. „Ég held að þetta eigi eftir að vera mikið betra, við losnum ábyggilega við allan kerfilinn,“ bætir Gunnar við. Er hann búinn að vera til vandræða? „Ekki beint vandræða en hann er fyrir,“ segir Guðbjörn.

Standa fyrir nafnasamkeppni

Bærinn stendur nú fyrir nafnasamkeppni fyrir þessa nýju íbúa og verða nöfnin tilkynnt 17. júní, en samkeppnin er reyndar í smá uppnámi. „Við áttum von á karli og kerlingu en fengum tvær gyltur. Svo við þurfum aðeins að aðlaga það en ég er ekkert ósáttur því ég hafði  miklar áhyggur af því að karlinn yrði skírður eftir mér. Ég er allavega laus við það,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður