Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Beinin segja til um kyn og aldur víkingsins

10.10.2016 - 19:35
Mynd:  / 
Fornleifafræðingar telja ólíklegt að víkingasverðið sem fannst við Eldvatn í Meðallandi tilheyri sama kumli og mannabeinin sem fundust á svæðinu nokkrum vikum síðar. Beinin segja til um aldur og kyn viðkomandi en ekkert um hugsanlega dánarorsök.

Gæsaskyttur gengu fram á beinin, nokkrum vikum eftir að forláta víkingasverð fannst á svipuðum slóðum. Beinin og sverðið virðast hafa komið í ljós eftir landbrot vegna hlaupa á svæðinu. „Í þessu tilviki hafði áin séð að mestu um uppgröftinn að mestu leyti fyrir okkur,“ segir Hildur Gestsdóttir fornmeinafræðingur. „Þessi einstaklingur hefur líkast til legið á vinstri hliðinni, og þá liggur vinstri fótleggurinn neðst, þannig að það er það eina sem hefur verið eftir.“ 

Beinin komu úr þurrkun í dag. Vegna þess hversu lengi þau höfðu verið undir vatni tók þurrkunin heila viku, en bein sem koma úr venjulegri gröf eða kumli tekur vanalega einn til tvo daga að þurrka. Beinin eru öll af vinstri fótlegg, auk örlítils fingurbeins, en geta þó sagt furðu mikið um eigandann.

Hávaxinn og sterkbyggður karlmaður

Hildur segir fornmeinafræðinga ekki gera mikið af því að nafngreina fólk. Aftur á móti sé ýmislegt hægt að lesa úr beinunum. Mestu upplýsingarnar er að fá frá mjaðmaspaðanum. Af honum má sjá kynið en einnig aldurinn. „Þó ég sé bara með vinstri fótlegg get ég sagt að þetta var karlmaður á fertugsaldri,“ segir Hildur. „Trúlega hávaxinn miðað við samtímamenn sína og stór, kröftugur.“

Sagnfræðingar hafa velt því upp að þarna gæti verið kominn Hróar Tungugoði, sem var veginn eftir deilur um níðvísur. Hildur segir það ekki í verkahring fornleifafræðinga að kljá út um það. „Það er í rauninni spurning sem fornleifafræðingar eru ekki að spyrja. Við erum ekki að reyna að tengja saman við ritaðar heimildir.“

Kumlið og beinin eru talin vera frá níundu eða tíundu öld. Ástand beinanna bendir til að maðurinn hafi verið hraustur, og því ólíklegt að langvinn veikindi hafi dregið hann til dauða. Hvernig hann dó er þó enn ráðgáta. Hann er ekki talinn vera eigandi víkingasverðsins sem fannst á sömu slóðum í september. „Það eru allar líkur á því að allavegana þessi bein og spjótið og hnífurinn sem við fundum í seinni ferðinni séu úr sömu gröfinni en það er ekki hægt að staðhæfa að sverðið sé úr sömu gröf og jafnvel færa rök fyrir því að svo sé ekki, heldur að þarna hafi verið kumlateigur sem að hefur farið í þessum hlaupum sem hafa verið upp á síðkastið.“