Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Beinagrind herforingja Napóleons fundin?

29.08.2019 - 15:17
Erlent · Napoleon · Rússland · Saga · Evrópa
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Franskir og rússneskir fornleifafræðingar velta nú fyrir sér hvort þeir hafi fundið beingrind fransks herforingja sem var í uppáhaldi hjá Napóleon Frakkakeisara. Herforinginn, Charles-Étienne Gudin, lést þegar drep hljóp í sár hans eftir að annar fóturinn var tekinn af honum árið 1812.

Æskufélagi Napóleons

Charles-Étienne Gudin var meðal æðstu foringja franska hersins sem réðst inn í Rússland 1812. Heimildir eru um að lík hans hafi verið jarðsett í Rússlandi en hjartað flutt til Frakklands og grafið þar. Franski fornleifafræðingurinn Pierre Malinovsky segir að Gudin og Napóleon hafi þekkst frá barnæsku og keisarinn hafi treyst æskuvininum umfram aðra foringja í liði sínu.

Lýsingar á sárum koma heim og saman

Beinagrindin fannst í Smolensk og það sem vakti athygli Marinu Nesterovu, sem fór fyrir rannsókninni, var að annan fótlegginn vantaði og merki voru um sár á hinum. Kemur það heim og saman við lýsingar á sárunum sem Gudin hlaut er hann varð fyrir fallbyssukúlu í orrustu nærri Smolensk. Gera á DNA-rannsókn á beinagrindinni til að ganga úr skugga um að þetta séu jarðneska leifar Gudins.  

Innrásin 1812

Napóleon Frakkakeisari réðst inn í Rússland árið 1812 og var meira en hálf milljón manna í her hans. Rússar hörfuðu undan og brenndu bæi og borgir og spilltu landi svo innrásarherinn gæti ekki lifað af landinu sem þeir hernámu. Frökkum tókst að hertaka Moskvu en Rússar brenndu borgina. Innrásin fór út um þúfur og komust aðeins tæplega 30 þúsund úr liði Napóleons af.

Lifir í minningu Rússa 

Innrásin 1812 lifir enn með rússnesku þjóðinni og hefur orðið uppspretta sagna, ljóða og tónverka. Eitt þekktasta verk rússneskrar bókmenntasögu, Stríð og friður eftir Lev Tolstoj, fjallar um atburði tengda innrásinni. Þá sækir eitt þekktasta verk tónlistarsögunnar efnivið sinn í innrásina, 1812 forleikurinn eftir Pjotr Tsjaíkovskíj.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV