Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Beðið með að sökkva háhyrningnum vegna veðurs

01.09.2019 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Hilma Steinarsdóttir
Draga átti háhyrninginn, sem rak á land við Þórshöfn á föstudag, út á haf í dag og sökkva hræinu. Það þarf hins vegar að bíða vegna veðurs, segir Jón Rúnar Jónsson, starfsmaður þjónustumiðstöðvar Langanesbyggðar, í samtali við fréttastofu. Samkvæmt veðurspám þurfi líklegast að bíða fram á þriðjudag með aðgerðina.

Komið verður böndum á háhyrninginn og hann dreginn talsvert langt út á haf. Stór trilla mun svo draga hræið með aðstoð björgunarsveitarinnar. Þá verða gerð göt á hræið og það opnað til að koma í veg fyrir að það fljóti aftur upp. Jón segir að það verði að sökkva hræinu. Það sé óæskilegt að hafa það í fjörunni, svo nálægt byggð. Þegar það fari að rotna og úldna verði óbærileg lykt í bænum. Mbl.is greindi frá. 

Háhyrningurinn festist í höfninni á föstudaginn. Björgunarsveitarmenn reyndu að bjarga honum og náðu að koma honum út fyrir varnargarð hafnarinnar eftir nokkrar klukkustundir. Þá var skeppnan nokkuð vönkuð, að sögn Þorsteins Ægis Egilssonar björgunarsveitarmanns. Háhyrninginn bar síðan aftur að landi og hann fannst svo dauður í fjörunni í gærmorgun.