Hildur segir í samtali við BBC að eftir sigurgöngu hennar hafi umræðan um kvenkyns tónskáld farið á fullt í Hollywood. „Ég hef heyrt frá fólki í þessum bransa að leikstjórar séu farnir að biðja um konur til að semja tónlist fyrir kvikmyndirnar sínar.“ Sigurganga hennar hafi vakið talsverða athygli, hún sé fyrsta konan sem hafi unnið til svona margra verðlauna í langan tíma og þetta hafi leitt til þess að umræðan hafi komist upp á yfirborðið.
Hildur hefur unnið bæði Grammy og Emmy fyrir sjónvarpsþættina Chernobyl og síðan Bafta og Golden Globe fyrir Joker. Hún þykir því nokkuð sigurstrangleg fyrir Óskarinn. Á síðustu tíu árum hefur það gerst sjö sinnum að sama tónskáld vinnur bæði Bafta og Óskar.
Hildur segir að hún hafi hálfpartinn verið lokkuð til að semja tónlistina við Joker af leikstjóra myndarinnar, Todd Phillips. „Handritið var bara stórkostlegt og snerti mig djúpt.“ Þar sem Jóker sé saga eins manns hafi henni fundist við hæfi að nota eitt hljóðfæri til að vísa veginn.
Sellóið hafi orðið fyrir valinu enda hljóðfærið hennar. „Ég varð ástfangin af þessari mynd og samdi öll aðalstefin áður en tökur hófust. Þeir gátu því notað þau við tökurnar og ég fékk að vera hluti af því ferli.“
Þannig lék tónlist Hildar lykilhlutverk í því hvernig Jókerinn varð til í túlkun Joaquin Phoenix. Hljóðheimurinn kveikti óvænt viðbrögð hjá Phoenix í einu eftirminnilegasta atriði myndarinnar sem síðar lagði grunninn að frammistöðu Phoenix í myndinni. „Hann er bókstaflega að bregðast við tónlistinni í rauntíma, atriðið hafði ekki verið skrifað svona.“ Phoenix þykir líklegur til að hreppa Óskarsverðlaunin sem besti leikarinn.