Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Baudenbacher: Mega ekki skerða atkvæðisrétt Ratcliffe

27.02.2020 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, segir að fyrirhugað þak á atkvæðisrétt eigenda veiðiáa standist ekki Evrópurétt. Þetta segir Baudenbacher í greinargerð sem hann vann fyrir Jim Ratcliffe, sem eignast hefur fjölda laxveiðiáa hérlendis. Greinargerðina sendi Gísli Stefán Ásgeirsson, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Veiðiklúbbsins Strengs, inn sem umsögn um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Þór hefur lagt fram frumvarp um að enginn geti farið með meira en 30 prósent atkvæða í veiðifélagi þar sem sjö eða fleiri lögbýli njóta atkvæðisréttar. 30 prósenta þakið á einnig við um tengda aðila. Í frumvarpinu segir að með þessu eigi að styrkja minnihlutavernd í veiðifélögum. Þar er sérstaklega vísað til þess að fjárfestar hafa keypt upp laxveiðijarðir og því geti einn aðili drottnað yfir málefnum veiðifélags.

Jim Ratcliffe er hvað þekktastur þeirra útlendinga sem hafa keypt fjölda laxveiðiáa hér á landi. Gísli Stefán, framkvæmdastjóri Strengs, vinnur með honum í slíkum málum. 

Baudenbacher segir í greinargerð sinni að frumvarpið veki spurningar um hvernig það samræmist skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Þetta á sérstaklega við um frjálsa för fjármagns, að hans mati. Baudenbacher segir að 30 prósenta þak á atkvæðarétt gæti fælt borgara annarra ríkja EES-svæðisins frá því að fjárfesta í íslenskum veiðiám. Hann segir að frumvarpið feli í sér ólögmæta mismunun á grundvelli þjóðernis og sé því ólögleg. 

Leiðrétt 14.02: Upphaflega sagði að Sigurður Ingi Jóhannsson hefði flutt frumvarpið en það er Kristján Þór Júlíusson.

fr_20191105_125384.jpg