Bauð Indlandsforseta velkominn til Indlands

10.09.2019 - 13:11
Mynd: Rúv / Rúv
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú tóku á móti Shri Ram Nath Kovind, forseta Indlands, og Savitu Kovind forsetafrú á Bessastöðum í dag.

Það vakti athygli að í ávarpi Guðna bauð hann Kovind og fylgdarlið hans velkomin til Indlands. Honum varð þarna augljóslega á í messunni, en áttaði sig ekki á mistökunum. Á myndskeiðinu hér að ofan sést indverski forsetinn gjóa augunum að Guðna og veltir eflaust fyrir sér hvort íslenski kollegi hans ætli ekki að leiðrétta sig.

Í kjölfar móttökunnar á Bessastöðum var undirritað samkomulag ýmis konar milli ráðuneyta landanna að forsetunum viðstöddum. 

Lúðrasveit spilaði undir þegar tekið var á móti forsetahjónunum á rauðum dregli við Bessastaði. Þá veifuðu börn úr Álftanesskóla indverskum og íslenskum fánum. 

Eftir að forseti Íslands bauð Indlandsforseta, fjölskyldu hans og fylgdarlið, velkomin til Indlands, sagðist hann vonast til þess, og treysta því, að heimsókn forsetans yrði báðum löndum til hagsbóta. 

Ráðamenn undirrituðu samkomulag

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra undirrituðu samkomulag við ráðamann frá Indlandi í kjölfarið. Beðið er eftir upplýsingum frá ráðuneytunum um hvað samið var um. 

Mynd: Rúv / Rúv

Þétt dagskrá hjá forsetahjónunum

Forsetahjónin ásamt fylgdarliði lentu á Keflavíkurflugvelli snemma í morguns. Dagskrá hjónanna er þétt skipuð. Forseti Indlands flytur nú fyrirlestur í Háskóla Íslands um áherslu Indlands og Íslands á umhverfismál. Í kvöld bjóða svo forsetahjón Íslands gestunum til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum. Á morgun skoða forseti og forsetafrú Indlands þjóðgarðinn á Þingvöllum og sitja svo hádegisverð í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Fyrsta heimsókn forsetans til norræns ríkis

Þetta er fyrsta heimsókn forsetans til norræns ríkis. Kovind var kosinn forseti landsins fyrir tveimur árum.

Forsetaembættið í Indlandi er valdalítið embætti og er forsetinn kjörinn af fulltrúum á þjóð- og héraðsþingum landsins. Forsætisráðherrann, sem nú er Narendra Modi, er valdamestur á Indlandi.

Mynd: Rúv / Rúv
Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi