Bauð Höfða sem vettvang friðarviðræðna

04.09.2019 - 18:47
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, bauð Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, að halda viðræður um afvopnun og frið í Höfða. Dagur leiddi Pence um Höfða í dag og sýndi honum þennan merka stað.

„Þetta var bara stutt. Ég er mjög ánægður með að fundurinn hafi verið í Höfða,“ segir Dagur í samtali við fréttastofu. Höfði er vettvangur viðræðna Ronalds Reagan forseta Bandaríkjanna og Mikhaíls Gorbatsjev leiðtoga Sovétríkjanna í Höfða 1986. Þar ræddu leiðtogarnir afvopnun kjarnorkuvopna.

Pence hefur sjálfur sagst vera mikill aðdáandi Reagans. Honum þótti augljóslega vænt um augnablikið þegar hann ritaði nafn sitt og stutt skilaboð í gestabók Höfða að lokinni heimsókninni.

„Nú eru bara örfáar vikur síðan sá samningur var að engu gerður. Ég fékk tækifæri til þess að hvetja varaforseta Bandaríkjanna til þess að setja það ferli aftur að stað og bauð fram Höfða sem fundarstað.“

Dagur segir það hafa verið góða tilfinningu að geta gert þetta. „Ég held að allir Íslendingar séu stoltir af Höfða-fundinum og það sem af honum leiddi. Ég held að við séum öll friðarsinnar. Ég held að það væri bara betra fyrir allan heiminn, svo maður taki sér svolítið hátíðleg orð í munn, að þetta afvopnunarferli haldi áfram.“

Spurður hvað honum finnist um að hinsegin fánanum hafi verið flaggað í nærliggjandi húsum segir dagur kíminn: „Ég er bara stoltur af því að vera borgarstjóri í borg þar sem fjölbreytileikanum er fagnað. Ég held að þetta séu bara hlýjar og réttar móttökur,“ segir Dagur.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi