Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Báturinn sem strandaði í Súgandafirði er ónýtur

14.11.2019 - 10:05
Mynd: Landhelgisgæslan / Facebook
Báturinn sem strandaði við Gölt í utanverðum Súgandafirði í gærkvöld er ónýtur. Hann er skorðaður milli kletta í fjörunni og marar í hálfu kafi. Sigmenn þyrlu Landhelgisgæslunnar björguðu fjórum úr skipinu um miðnættið. Þeim varð ekki meint af.

Varðskipið Týr er komið á strandstað. Veðrið er ágætt en úthafsalda brýtur á skipinu. Áhöfn varðskipsins og eigendur bátsins ætla að hreinsa upp brak og annað rusl við strandstað í dag.

Auðunn Friðrik Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, sagði í áttafréttum útvarps að skipverjarnir hefðu verið í töluverðri hættu og ekki víst hvað báturinn entist lengi. Brotið hafi verið mikið og mikil hreyfing á bátnum.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV