Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bátur brann og sökk í Vogum

19.11.2019 - 09:49
Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Suðurnesja
Trébátur varð alelda og sökk í höfninni í Vogum á Vatnsleysuströnd í nótt. Ásgeir Þórisson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir slökkvilið hafa fengið tilkynningu um eldinn um klukkan hálf fimm og að báturinn hafi verið alelda þegar slökkvilið bar að garði.

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins en slökkvistarfi lauk á sjötta tímanum. Báturinn, sem ekki var í notkun, sökk fljótlega eftir komu slökkviliðs. Ekki voru taldar líkur á að eldurinn bærist í aðra báta.

Eldsupptök liggja ekki fyrir á þessari stundu. Ásgeir segir að nú taki hafnaryfirvöld við málinu sem ákveði til að mynda hvort báturinn verði sóttur á hafsbotn.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV