Barnaverndarnefnd dæmd til að greiða miskabætur

19.12.2019 - 11:04
Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun barnaverndarnefnd Reykavíkur til að greiða foreldum ungs drengs miskabætur vegna meðferðar nefndarinnar á máli hans. Fjallað var um málið í Kveik fyrir tveimur árum. Foreldrarnir sögðu að meðferð barnaverndarnefndarinnar hefði haft alvarleg og varanleg áhrif á fjölskyldu hans.

Samtals var nefndinni gert að að greiða fjölskyldunni 8 milljónir. Foreldrarnir fá hvort um sig tvær milljónir, sömu upphæð fær sonurinn og systir hans.  Enn á eftir að reikna út skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns en samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður það gert síðar.

Foreldrarnir voru grunaðir um að hafa hrist hann sumarið 2013. Þau neituðu því og sögðu að heilablæðingin sem hann hefði hlotið væri afleiðing þess að hann hefði fallið aftur fyrir sig á heimili þeirra. Í stefnu þeirra kom fram að málið hefði valdið þeim kvíða og raskað fjölskyldulífi en foreldrarnir flosnuðu upp úr námi, slitu samvisum og glíma bæði við mikinn kvíða og þunglyndi.

Fjallað var ítarlega um málið í Kveik fyrir tveimur árum en málið tók verulegan tíma í meðferð bæði lögreglu og barnaverndar. Ríkið greiddi fjölskyldunni bætur vegna ólögmætra aðgerða lögreglu og Barnaverndarstofu en Reykjavíkurborg hafnaði bótakröfu og taldi barnaverndarnefndina ekki hafa orðið uppvísa að saknæmu athæfi.

Datt aftur fyrir sig og lenti á hnakkanum

Í stefnunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, er greint frá ferli málsins. Þar segir að seint í maí árið 2013 hafi drengnum svelgst á og faðir hans slegið á bak hans til að hjálpa honum að ná andanum. Í kjölfarið hafi hann kastað upp. Nokkrum dögum síðar fóru þau með hann til barnalæknis, því veikindi hans höfðu versnað. Geir Friðgeirsson barnalæknir tók á móti fjölskyldunni og meðhöndlaði drenginn með sýklalyfjum. 

Eftir nokkrar læknaheimsóknir vegna ofnæmisviðbragða við sýklalyfjum átti drengurinn tíma hjá lækni á Barnaspítala Hringsins 2. júní 2013. Að morgni þess dags þegar móðir drengsins var að undirbúa þau fyrir tímann féll drengurinn aftur fyrir sig á stofugólfinu og lenti harkalega á hnakkanum. Við komuna á Barnaspítalann gerði móðirin grein fyrir því sem hafði gerst og var hann settur í CT myndatöku. Þar kom í ljós heilablæðing vinstra megin.

Eftir frekari skoðun töldu heilbrigðisstarfsmenn að um heilkenni ungbarnahristings (s. shaken baby syndrome) væri að ræða þar sem blæðingar greindust í augnbotni. Daginn eftir var Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynnt um málið og var drengurinn vistaður á vistheimili barna eftir útskrift af spítalanum. Var það gert í fullu samráði við foreldrana.

Taldi að ekki væri um SBS að ræða

Heimilislæknir fjölskyldunnar skilaði greinargerð nokkrum dögum síðar. Hann taldi að þetta væri ekki heilkenni ungbarnahristings, heldur væru áverkar til komnir vegna veikinda hans, og fallsins enda væri hann valtur þar sem hann væri enn að læra að ganga. 

Meðferð málsins tók langan tíma og var drengurinn vistaður utan heimilis síns í margar vikur. Foreldarnir líkja dvölinni á vistheimilinu við fangavist. Eftir tvær vikur þar sóttu þau um að fá að dvelja undir eftirliti hjá foreldrum föðurins sem var samþykkt. Við þá ráðstöfun voru reglur um umgengni foreldranna við soninn hertar. Þau máttu ekki vera eftirlitslaus í kringum hann. 9. október 2013 fengu þau svo að snúa til síns heima, um fjórum mánuðum eftir að málið hófst.

Ríkið viðurkenndi bótaskyldu sína

Málinu lauk þó ekki hjá lögreglu og Barnaverndarnefnd fyrr en sumarið 2014.  Snemma árs 2015 sendu foreldrarnir formlega kvörtun til Barnaverndarstofu sem gerði athugasemdir við málsmeðferðina þann 30. júní 2015. Haustið 2016 var svo gefin út krafa um viðurkenningu á bótaskyldu til ríkisins annars vegar vegna aðgerða Barnaverndarstofu og lögreglunnar og hins vegar á hendur Reykjavíkurborgar vegna aðgerða Barnaverndarnefnar. 

Borgarlögmaður hafnaði kröfunum í nóvember það sama ár og sagði að nefndin hefði ekki gerst sek um saknæmt athæfi. Ríkið viðurkenndi bótaskyldu sína og sögðu að Barnaverndarstofa og lögregla hefðu brotið rétt foreldranna til friðhelgi einkalífs fjölskyldunnar.

Telja engan fót fyrir því að taka soninn af heimilinu

Foreldarnir telja að með því að vista drenginn utan heimiliss hafi verið brotið á stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Enginn fótur hafi verið fyrir því að vista drenginn utan veggja heimilisins áður en rannsókn fór fram og það hafi gengið lengra en nauðsynlegt var. Telja foreldrarnir að aðgerðin hafi verið ólögmæt frá upphafi.

Foreldarnir telja sig hafa orðið fyrir miklu og varanlegu, margvíslegu tjóni vegna málsins. Þau hafi verið sökuð um ofbeldi gagnvart syni sínum, húsleit hafi verið gerð á heimili þeirra og þeim gert að dvelja utan þess í fjóra mánuði. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV