Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Barnaþing skrifar nýjan kafla í réttindamálum barna

21.11.2019 - 19:43
Mynd: RÚV / RÚV
Barnaþing var sett í dag og er nú haldið í fyrsta sinn, en því er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu. Þar geta börn og ungmenni komið sjónarmiðum sínum á framfæri, greint frá því hvernig þau upplifa áhrif sín eða áhrifaleysi og hvað þeim finnst mikilvægast að stjórnvöld fjalli um. 

„Til dæmis um hungursneyð og stríð og hvernig við eigum að bregðast við og hvernig við ættum að hætta þeim,“ segir Halldór Björke Helgason, 12 ára gamall nemandi úr Reykjahlíðarskóla. En hvernig getum við hætt stríði og stöðvað hungursneyð?

„Til dæmis með því að gefa börnunum nógu mikinn mat eða senda þeim nógu mikinn mat, og reyna að tala á milli, lönd sem eru í stríði. Ræða málin.“

Yfir 150 börn, valin með slembiúrtaki úr þjóðskrá, sitja þingið á morgun. Og það eru þau sem ráða ferðinni.

„Að mínu mati eru þetta straumhvörf. Við erum raunverulega að byrja nýjan kafla er varðar réttindi barna hér á landi, með Barnaþinginu. Vegna þess að þetta er vettvangur sem er kominn til að vera. Svo verður næsta barnaþing eftir tvö ár og þá er mjög mikilvægt að við séum búin að taka tillit til þeirra tillagna sem komu, þannig að við komum ekki tómhent á næsta barnaþing og segjum nei, það gerðist ekki neitt,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV