Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Barist fyrir sömu hlutum 50 árum síðar

20.11.2019 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra segir réttindabaráttu fatlaðra á margan hátt á sama stað og fyrir 50 árum. Hún segir hina sífelldu baráttu við kerfið draga allan mátt úr foreldrum.

Sif Sigurðardóttir formaður Þroskahjálpar á Norðurlandi eystra segir réttindabaráttu fatlaðra að miklu leyti á sama stað og fyrir hálfri öld. Enn sé verið að berjast fyrir sömu málefnum þótt margt gott hafi gerst líka. 

Stærsti sigurinn að mati Sifjar er viðhorfsbreytingin sem hafi orðið í garð fatlaðra. Fatlað fólk sé núna metið og álitið nýtir þjóðfélagsþegnar. 

Örmagna foreldrar

Enn sé barist fyrir búsetuúrræðum og málum er varða skólagöngu barna með fötlun. Þá segir hún sífellda baráttu foreldra við kerfið draga úr því alla orku. Kulnun og örmögnun foreldra barna með fötlun og langveikra barna sé algeng og það vanti meiri stuðning.

„Það er alveg nóg að eiga barn með fötlun þó þú þurfir ekki stanslaust að vera í baráttu sem oft tekur miklu meira á. Að berjast við kerfið er eitthvað getur drepið mann hægt og rólega,“ segir Sif

Enginn akstur brot á mannréttindum

Hún segir bæta þurfi þjónustu þegar kemur að akstri þegar í stað. Engin akstursþjónusta sé á Akureyri fyrir fólk í hjólastjól eftir klukkan tíu á kvöldin til átta á morgnanna og ekki um helgar. Fólk í hjólastól geti því ekki fengið þjónustu eftir klukkan tíu á föstudagskvöldum til átta á mánudagsmorgnum.

„Ef þú ert í hjólastól þá ertu heima hjá þér um helgar,“ segir Sif. Þetta sé klárt mannréttindabrot sem Akureyrarbær þurfi að taka til sín og laga strax í dag.

Vantar hvatningu til að laga aðgengismál

Þá þurfi að laga aðgengismál og tekur Sif miðbæ Akureyrar sem dæmi þar sem aðgengi sé mjög slæmt. Akureyrarbær þurfi að hvetja fyrir fyrirtæki til þess að laga aðgengi. Hún segir að Sjálfsbjörg geri úttekt á aðgengismálum á Akureyri á hverju ári og niðurstöðurnar séu alltaf þær sömu, aðgengi sé slæmt. 

Hópurinn fari stækkandi

Húsnæðismál segir hún þurfa að laga. Þriggja til fimm ára bið sé eftir húsnæði og biðlisti eigi bara eftir að lengjast. Hún segir hóp þeirra sem greinast með fötlun fara stækkandi og ljóst að það þurfi að gera eitthvað strax til að komast til móts við þarfir þeirra.

Í fréttum nýlega var sagt frá nýjum þjónustukjarna fyrir fatlaða sem verður tekinn í notkun næsta sumar. Með honum styttist þó ekki biðlisti þar sem hann kemur í stað annars húsnæðis. Í dag eru 13 manns á biðlista eftir sértæku húsnæði á Akureyri.

Sif segir það megi þó ekki gleyma því sem vel hefur verið gert - sem sé margt. Hún segir Akureyrarbæ gera vel í atvinnumálum fatlaðra og hafi gert lengi. Þroskahjálp eigi í góðum samskiptum við bæjaryfirvöld sem séu alltaf til í að hlusta. Þá sé jákvætt að herbergjasambýli leggist brátt af á Akureyri.

Rætt var við Sif á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.