Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Barin til óbóta fyrir að vera hinsegin

Mynd: Nanette / Netflix

Barin til óbóta fyrir að vera hinsegin

17.10.2019 - 13:56

Höfundar

Í einu umtalaðasta uppistandi síðustu ára, Nanette með Hönnuh Gadsby, hættir hún að grínast um miðbik uppistandsins og opinberar harm sinn og bræði fyrir gáttuðum áhorfendum. Gleðitár hennar víkja fyrir sorgar- og loks sigurtárum hinsegin konu sem neitar að gera lengur lítið úr sjálfri sér. Hún kemur fram í Hörpu annað kvöld með nýtt uppistand sem nefnist Douglas.

Hún lýsti því yfir í síðasta uppistandi sínu Nanette, sem streymisveitan Netflix tók í sýningu eftir gífurlegar vinsældir og mikið umtal, að hún gæti ekki lengur séð fyrir sér að halda áfram í uppistandi. Þrátt fyrir yfirlýsingarnar er hún mætt aftur með glænýja grínsýningu sem hún sýnir í Eldborg annað kvöld. 

„Ég get þetta ekki lengur,“ sagði hún í einlægni þar sem hún horfði í augun á smekkfullum salnum sem kom til að hlæja. „Ég mun ekki gera lítið úr sjálfri mér með gríni, ég mun hvorki sjálfri mér það né neinum sem tengir við mig.“ Hún leysti svo frá skjóðunni og lýsti því hvernig sögurnar á bak við sannsögulega brandara hennar væru í raun tragískar. Að hún hafi komist í gegnum áföllin með því að grínast með og gera lítið úr sjálfri sér því henni þætti hún einskis virði. Gagnrýnandi The Guardian sagði að sýning hennar væri „grimmileg árás á uppistandsformið.“ Þar kemur fram að hún leyfi sér að dreyma um bjartari framtíð fyrir okkur öll og fyrir grínið.

Lesbía í fordómafullu samfélagi

Hannah Gadsby hefur verið virk í uppistandi frá árinu 2006 en hún vakti verðskuldaða athygli eftir að lenda í öðru sæti á Fringe-hátíðinni í Edinborg. Ferill hennar fór á stöðugt en hægt flug eftir það. Líf hennar var þó síður en svo einfalt áður en hún fór að framfleyta sér með gríni. Hún ólst upp í afskekktum smábæ á strönd Tasmaníu þar sem miklir fordómar ríktu gagnvart hinsegin fólki en Gadsby er sjálf samkynhneigð. Hannah var heimilislaus um tíma og greindist hún nýlega með athyglisbrest og á einhverjurófi. Allt litar þetta nýjasta uppistand hennar Douglas sem þykir ekkert venjulegt glens enda hefur Gadsby aldrei þótt venjulegur grínisti.

Að leyfa sér að vera þunglynd og flöt

Gadsby á sér ýmsa aðdáendur hér á landi sem sátu hrærðir og klökkir yfir Nanette á Netflix. Nanna Hlín Halldórsdóttir doktor í heimspeki og stundakennari við Háskóla Íslands er ein þeirra en hún sá Gadsby fyrst í í áströlsku þáttunum Please like me sem komu bæði skapara þeirra Josh Thomas og Hönnuh Gadsby á kortið. „Hennar karakter hafði ótrúleg áhrif á mig,“ segir Nanna Hlín. „Mér fannst hún óvenjulegur karakter. Það er eitthvað við það hvernig hún leyfði sér að vera þunglynd og flöt.“

Gadsby leikur konu í þáttunum sem kynnist manískri móður aðalpersónunnar á geðveikrahæli. Konan sem Gatsby leikur hefur dvalið þar vegna sjálfsvígshugsana og þunglyndis. Hún verður í kjölfarið hluti af vinahópi móðurinnar og sonarins þrátt fyrir að vera innhverf og lítið gefin fyrir margmenni og sprell eins og aðrar persónur þáttanna. „Hún kom mér fyrir sjónir sem allt öðruvísi karakter en ég hef vanist úr skemmtiþáttum. Maður sér hana þroskast og ná sér úr þunglyndinu og þá kemur hún meira í ljós eins og maður sér hana í uppistandinu.“

Nanna Hlín horfir venjulega ekki á uppistand en hún villtist inn á Netflix á dögunum, horfði á Nanette og féll kylliflöt. „Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og hafði gríðarleg áhrif á mig,“ segir Nanna Hlín.

Má vera viðkvæmur grínisti

Útgangspunktur uppistandsins er ákveðin afhjúpun á því sem hlegið er að. Hún byrjar á að segja kaldhæðnislegar sögur af því hvernig það er að vera hinsegin kona, lesbía sem elst upp í umhverfi þar sem hinseginleikinn var ekki samþykktur og hinsegin fólk beitt ofbeldi og útskúfun. „Þetta hættir hins vegar að vera grínsaga þegar á líður og breytist í tragíska sögu manneskju sem hefur þurft að þola rosalega mikið. Hún lætur skína í réttláta reiði,“ segir Nanna Hlín. „Maður áttar sig á því að það sem maður hefur verið að hlæja að fram að þessu er eitthvað sem maður neyðist til að setja spurningarmerki við hvort sé í raun grín.“

Það má segja að Nanette eigi meira skylt við pólitíska ádeilu en uppistand. Hún sýnir fram á að þó hún sé grínisti megi hún vera viðkvæm: „#metoo-byltingin gengur að miklu leyti út á að búa til rými fyrir berskjöldun. Konur og margir sem hafa orðið fyrir áföllum þurfa ekki lengur að halda kúlinu til að takast á við áföllin.“

Grínsagan endaði í raun á barsmíðum

Snemma í Nanette segir Hannah söguna af því þegar hún var í strætóskýli að spjalla við stúlku. Kærasti stúlkunnar kom aðvífandi og ætlaði að reiðast út í þennan mann sem væri að stíga í vænginn við kærustuna sína. Þegar kærastinn uppgötvar að Gadsby er kona biðst hann afsökunar. Þannig hljómar sagan til að byrja með og uppsker hún mikinn hlátur.

Í seinni hluta sýningarinnar viðurkennir hún hvernig sagan endaði í raun og veru. Maðurinn barði hana til óbóta fyrir að vera lesbía og hún sótti sér ekki læknishjálp heldur haltraði á brott. Henni fannst hún vera einskis virði. Meira að segja eftir að hún fór að grínast með það.

Eina mínútu Greta Thunberg, hina mínútuna lúði að glensa

„Hún lýsir því hvernig hún hefur notað húmorinn sem skjöld í gegnum tíðina og rifið sig síðan niður með grínið að vopni. Uppistandið er spegill sem fær okkur til að spyrja okkur sjálf hvers vegna við hlæjum að jaðarsettum hópum og sjálfum okkur,“ segir Nanna Hlín.

Gadsby lýsir því yfir að hún ætli ekki lengur að nota húmorinn til að gera lítið úr sjálfri sér og því verður forvitnilegt að sjá hverju hún gerir grín að á morgun. „Mér finnst frábært að hún brjóti upp þetta uppistandsform með þessum hætti og sýni okkur að það sé hægt að vera með tragekómedíu í uppistandi sínu. Eina mínútu máttu vera Greta Thunberg, hina máttu vera lúði að grínast.“

Samkvæmt Nönnu Hlín er fólk komið með leið á týpískum bröndurum. „Húmor er svo skapandi afl. Það er ekki þannig að það þurfi ýmist að grínast með jaðarsetta hópa eða sjálfan sig, það má grínast með allt.“

Íslendingar komast að því annað kvöld hvernig Gadsby snýr aftur eftir áhrifamikinn pólitískan gjörning sem Nanette fól í sér og hvort Douglas verður einnig baksýnisspegill á samfélagið sem kallar fram hlátur og reiði jöfnum höndum. Uppistand Hönnuh Gadsby hefst á morgun í Hörpu klukkan 20.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Nönnu Hlín í Lestinni og má hlýða á allt innslagið í spilaranum efst í fréttinni

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Hannah Gadsby í Eldborg