Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Barði vegfaranda með reiðhjóli og rændi hann

05.06.2018 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Google Street View
Ungur maður var í dag úrskurðaður í eins mánaðar gæsluvarðhald fyrir rán á göngustíg á milli Engjateigs og Sigtúns í Reykjavík um miðjan dag í gær. Maður á fertugsaldri sem var á göngu með hundinn sinn varð fyrir fólskulegri árás ræningja á reiðhjóli, sem beitti ekki bara hefðbundnum meðulum heldur notaði hjólið sem barefli. Maðurinn hlaut töluverða áverka af atlögunni og var fluttur með sjúkrabíl af vettvangi. Ræninginn hafði síma mannsins á brott með sér en náðist í Lágmúla, steinsnar frá.

Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi segir að maðurinn sem varð fyrir árásinni hafi átt sér einskis ills von. Hann hafi einfaldlega verið úti að viðra hundinn sinn í blíðviðrinu á öðrum tímanum í gær þegar á hann var ráðist. Hann var svo skilinn eftir liggjandi í blóði sínu eftir að höggin höfðu verið látin dynja á honum, talsvert slasaður og skorinn. Ræninginn hafði af honum símann þannig að hann gat ekki hringt sjálfur eftir aðstoð en tókst þó að gera vegfaranda viðvart, sem hringdi eftir lögreglu og sjúkrabíl.

Ræninginn náðist í Lágmúla tæpri klukkustund síðar. Hann er rúmlega tvítugur, á sögu um afbrot og var undir áhrifum þegar hann var handtekinn. Hann var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur undir hádegi í dag og úrskurður í eins mánaðar gæsluvarðhald.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV