Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Barátturæður, dáleiðsla og kökuslagur hjá Krakkaveldi

Mynd með færslu
 Mynd: Krakkaveldi - Aðsend mynd
Börn á aldrinum 7 til 12 ára, sem skipa samtökin Krakkaveldi, stóðu fyrir viðburði í Iðnó í gær þar sem þau tóku meðal annars fyrir vandamál fullorðinna og buðu fram aðstoð sína við að finna lausnir og góð ráð við þeim. Dagskrá lauk svo með rjómatertuslag.

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, sem þróaði og fer fyrir verkefninu, segir að börnin, sem vilji breyta heiminum, vilji að fullorðnir hlusti á þeirra hugmyndir og hugsjónir. Á viðburði gærdagsins, sem var liður í dagskrá hátíðarinnar Reykjavík Dance Festival, tóku börnin því fyrir ýmis stór vandamál heimsins og buðu fram lausnir við þeim. 

Buðu upp á lausnir, dáleiðslu og rjómatertuslag

Börnin vildu meðal annars aðstoða fullorðið fólk við að finna lausnir á vandamálum sem þeim þykir þau glíma við, svo sem streitu og stressi, segir Salvör. Þá vinni þau of mikið og taki sér sjaldan frí - en til sé einföld lausn við því; Einfaldlega vinna minna og nýta gæðastundir betur. 

Einnig var boðið upp á dáleiðslu, til að draga úr streitu, sem börnin sömdu og leiddu sjálf. Dagskráin endaði svo á rjómatertu-slag, sem sjaldan stendur fullorðnum til boða en þau virtust hafa gaman af. Salvör segir að börnin semji allt sitt efni sjálf og ákveði hvað skuli gert á viðburðum og sýningum samtakanna. Þau séu í raun hennar samstarfsmenn og hún haldi utan um vinnuna.

Krakkar fái líka að ráða

Eldlilja Kaja Heimisdóttir, ellefu ára nemandi við Fossvogsskóla sem hefur verið félagi í Krakkaveldi frá upphafi, segir að viðburður gærdagsins hafi gengið mjög vel. Hún hélt þar ræðu sem hún skrifaði sjálf og fjallaði um það hversu heppnir Íslendingar eru að ekki geisi stríð hér á landi. Þá ættum við ekki að senda fólk úr landi. 

Viðburðurinn og ræðan gekk mjög vel. „Í dáleiðslunni fórum við yfir allt sem okkur finnst að þurfi að breyta,“ segir hún í samtali við fréttastofu. Aðspurð um hvort dáleiðslan hafi virkað svaraði Eldlilja: „Já, kannski smá.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: Krakkaveldi - Aðsend mynd

Hún segir að  með rjómatertuslagnum hafi börnin einfaldlega viljað fá að gera það sem þeim langaði til og sýna með því að krakkar eigi að mega að fá að ráða, alveg eins og fullorðnir. „Stundum viljum við bara fá að gera eitthvað skemmtilegt.“

Berjast fyrir eigin valdeflingu 

Krakkaveldi eru samtök barna sem berjast fyrir eigin valdeflingu og vilja breyta heiminum. Salvör segir að stefnumál barnanna séu mismunandi og fjölbreytt.

Til að mynda vilji sum hver að börn fái kosningarétt, eða fái að fara á þing Einnig vilji þau að hætt verði að senda fólk úr landi. Þá þykir sumum verðlag of hátt, eða hlutirnir kosta of mikið, sem þýði að margir eigi ekki efni á að gera skemmtilega hluti. Það sé ósanngjarnt. Mikið ber þá á umhverfis- og loftslagsmálum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Krakkaveldi - Aðsend mynd

Flokkurinn stofnaður fyrir ári

Stofnun samtakanna var hluti af lokaverkefni Salvarar af sviðslistabraut Listaháskóla Íslands. Starfsemi samtakanna hófst fyrir um ári síðan þegar átta krakkar skipulögðu kröfugöngu, undir handleiðslu Salvarar, og hópur barna mótmælti í kjölfarið fyrir utan Alþingi og krafðist valda. Þann fyrsta maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, boðuðu samtökin svo til fyrsta baráttufundar síns í Iðnó, þar sem stefnumál flokksins voru tekin fyrir.

Nú í nóvember, á alþjóðlegum degi barna og í tilefni af þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, tóku um tvö hundruð börn í Kópavogi þátt í málþingi á vegum Krakkaveldis. Þar ræddu þau um réttindi sín og hverju þau myndu vilja breyta í heiminum. Í lokin var bæjarstjóra Kópavogs afhent ályktun barnanna.

Salvör segir verkefnum samtakanna hvergi nærri lokið og megi því búast við áframhaldandi baráttu og viðburðum á vegum þeirra. Á Facebook-síðu samtakanna er svo sérstaklega tekið fram að öllum krökkum sé velkomið að vera með. 

Mynd með færslu
 Mynd: Krakkaveldi - Aðsend mynd