Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Barátta fyrir betri Vatnsnesvegi heldur áfram

18.10.2019 - 11:22
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra segir það mikið afrek að framkvæmdir við Vatnsnesveg hafi ratað inn á nýja samgönguáætlun. Gert er ráð fyrir að þremur milljörðum króna verði varið í veginn á árunum 2030 til 2034. Hún segir að með þessu sé hálfur sigur unninn og ætlar að beita sér fyrir því að framkvæmdum verði flýtt.

Umferð á svæðinu aukist

Íbúar á Vatnsnesi hafa lengi barist fyrir bættum vegasamgöngum. Umferð um nesið hefur aukist mikið síðustu ár og vegurinn í slæmu ástandi. Sveitarstjórn ætlar að halda áfram að vekja athygli á bágu ástandi vegarins og hvetja til þess að vinnu við hann verði flýtt á samgönguáætlun.

Ætla að ræða við ráðherra

„Við fögnum því að Vatnsnesvegurinn sé kominn inn á samgönguáætlun og það er í sjálfum sér mikið afrek en sama tíma hefðum við viljað sjá hann fyrr á tímabilinu. Hann kemur inn á þriðja tímabil sem er eftir tíu til þrettán ár og við teljum að það sé óviðunandi og við munum á næstu dögum hafa samband við ráðherra og fá fund með honum og fara yfir stöðuna og hvort það sé eitthvað hægt að koma honum framar. Því vegurinn batnar ekki á næstu tíu árum, það er alveg ljóst," segir Ragnheiður.  

Þannig að ykkar barátta heldur áfram?

„Já okkar barátta fyrir betri Vatnsnesvegi heldur áfram."