Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bára eyðir Klaustursupptökunum á Gauknum

03.06.2019 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Svokölluð Báramótabrenna verður haldin á Gauknum í Reykjavík annað kvöld en þá hyggst Bára Halldórsdóttir eyða Klaustursupptökunum með „kjánalega mikilli viðhöfn.“

Í maí komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að upptaka Báru af samtali þingmannanna sex á Klausturbar hefði verið brot á persónuverndarlögum. Báru var ekki gert að greiða sekt en Persónuvernd horfði þar til kringumstæðna í málinu auk þess sem talið var að stjórnmálamenn nytu minni einkalífsverndar en aðrir. Persónuvernd mæltist þó til þess að Bára eyddi upptökunni.

Hugmyndina að viðburðinum fékk Bára á Twitter en í gær auglýsti hún þar eftir hugmyndum að leiðum til að eyða upptökunum og nafni á athöfninni. 

Sigurtillagan var svokölluð Báramótabrenna sem haldin verður á Gauknum, sem Bára segist hafa orðið fyrir valinu því Gaukurinn sé hennar heimavöllur.  

Á Facebooksíðu viðburðarins segir: „Báru Halldórsdóttur hefur verið gert að eyða Klaustur-upptökunum og mun hún gera slíkt með viðhöfn á Gauknum þriðjudagskvöldið 4. júní.“ Þar kemur jafnframt fram að lögfræðingar Báru, Auður Tinna Arinbjarnardóttir og Ragnar Aðalsteinsson, muni sjá um að skrásetja viðburðinn og að valdir kaflar upptökunnar verði kvaddir sérstaklega. Þá flytur Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, opnunarávarp fyrir hönd stuðningshópsins Takk Bára. 

Ekki er tekið fram hvernig Bára hyggst eyða upptökunum, einungis að þeim verði eytt „með viðhöfn“, en af nafninu að dæma kemur einhvers konar brenna við sögu. Að því loknu verður fólki frjálst að grípa í hljóðnemann, fyrst til að segja eitthvað uppbyggilegt og svo til að syngja í karókí. Viðburðurinn hefst klukkan níu. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV