Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bára borgar ekki sekt en þarf að eyða upptökum

22.05.2019 - 21:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Bára Halldórsdóttir braut persónuverndarlög með því að taka upp samtal þingmanna á barnum Klaustri í nóvember og um rafræna vöktun hafi verið að ræða að hennar hálfu. Þetta er niðurstaða stjórnar Persónuverndar sem úrskurðaði um málið í dag. Báru er ekki gert að greiða sekt en hún þarf að eyða umræddum upptökum.

Sjá frétt: Bára braut persónuverndarlög

Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sendi erindi til Persónuverndar í desember þar sem þess var krafist að stofnunin tæki til rannsóknar upptökur Báru Halldórsdóttur af samtali þeirra á Klausturbar 20. nóvember.

Þar kom meðal annars fram að umræddar samræður hefðu verið einkasamtal, aðliggjandi borð á Klausturbar staðið auð og engir aðrir gestir nálægir. Því hafi þingmennirnir „mátt treysta því og haft réttmætar væntingar til þess að samræður þeirra sættu ekki njósnum, upptöku eða annarri vinnslu utanaðkomandi,“ sagði í erindi lögmanns þingmannanna sem sent var Persónuvernd 5. desember.

Sögðu engar líkur á gáleysisbroti

Upptökur Báru á samræðunum hafi því að mati þingmannana strítt gegn öllum meginreglum um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum um slíkt og engar líkur á því að um gáleysisbrot væri að ræða, sagði enn fremur í erindinu.

Lögmaður Báru sendi Persónuvernd svar vegna umrædds erindis. Þar í fyrsta lagi fram fram að talið væri að með vísan til laga og fordæma að málið heyrði ekki undir Persónuverndarstofnun. Í öðru lagi að það væri á verksviði dómstóla að fjalla um álitaefni tengd tjáningarfrelsi Báru.

Persónuvernd gerði hlé á skoðun sinni á meðan mál þingmannanna gegn Báru var fyrir héraðsdómi og Landsrétti, sem höfnuðu kröfum þeirra um vitnaleiðslur og gagnaöflun.

Stjórn Persónuverndar úrskurðaði í dag að Bára fór í bága við lög um um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga með því að taka samtalið upp í leyni. Hún á að eyða upptökunni og senda Persónuvernd staðfestingu þess efnis. 

Bára bar ábyrgð

Komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að Bára væri ábyrgðaraðili að vinnslu þess efnis sem hún tók upp á Klausturbar. Ekki var fallist á kröfu hennar um frávísun á grundvelli þess að um væri að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í tengslum við lögbundin verkefni Alþingis.

Telur Persónuvernd um rafræna vöktun hafi verið að ræða af hálfu Báru þegar hún tók upp samtal þingmannanna og farið í bága við ákvæði reglugerð ESB um vinnslu persónuupplýsinga.

Úrskurður birtur á morgun

Að beiðni lögmanns þingmannanna verður úrskurðurinn ekki birtur fyrr en á morgun, en fréttastofa hefur hann undir höndum. Þar segir meðal annars að Bára hafi talið ummæli þingmannanna hafa þýðingu í ljósi stöðu þeirra, samræðurnar hafi orðið tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi kjörinna fulltrúa og ekkert bendi til samverknaðar í málinu.

Þar af leiðandi er það mat Persónuverndar að Bára þarf ekki að greiða sekt í málinu. Hún þarf að eyða upptökunni af Klausturbar og skal staðfesting á því berast Persónuvernd eigi síðar en 5. júní.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV