Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bara Bára þarf að eyða upptökunni

Mynd með færslu
 Mynd:
Það er aðeins Bára Halldórsdóttir sem þarf að eyða upptökunum sínum af samtali sex þingmanna á vínveitingastaðnum Klaustri. Þetta kemur fram í svari Persónuverndar við fyrirspurn fréttastofu en stofnunin segir að úrskurður hennar í Klausturmálinu nái aðeins til þeirra sem aðild áttu að málinu.

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að upptaka Báru  á samtali þingmannanna sex hefði verið brot á persónuverndarlögum.

Báru var aftur á móti ekki gert að greiða sekt og horfði Persónuvernd þar til kringumstæðna í málinu auk þess sem talið var að stjórnmálamenn nytu minni einkalífsverndar en aðrir.  Persónuvernd mæltist þó til þess að Bára eyddi upptökunni.

Upptökunni var hins vegar dreift til fjölmiðla en bæði DV og Stundin birtu fréttir upp úr henni og lagaskrifstofa Alþingis fékk sömuleiðis afrit af henni þegar Klausturmálinu var vísað til siðanefndar. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Persónuvernd að fyrirmæli um eyðingu upptökunnar nái aðeins til Báru. „Hins vegar skal bent á að dreifing einstaklinga og annarra á persónuupplýsingum getur fallið undir ákvæði persónuverndarlaga,“ segir í svari Persónuverndar.

Tímalengd upptökunnar virtist líka hafa skipt máli en Bára tók upp samtal þingmannanna í fjórar klukkustundir. Persónuvernd taldi það ekki geta fallið undir fréttamennsku að viðhafa slíka vöktun með leynd svo lengi og því yrði að flokka upptökuna sem rafræna vöktun.  Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum hvort Persónuvernd hefði einhver sérstök tímamörk á því hvenær upptaka væri fréttamennska og hvenær slík upptaka yrði rafræn vöktun.

Í svari Persónuverndar segir að tímalengd upptökunnar sé sannarlega einn þeirra þátta sem hafi haft áhrif á niðurstöðu Persónuverndar. Ekki hafi þó verið miðað við ákveðin tímamörk heldur metið hvort vöktun hafi talist viðvarandi í umræddu tilviki.

Þá hafi það jafnframt haft áhrif að upptakan fór fram með leynd.  „Hins vegar má benda á að niðurstaða Persónuverndar í umræddu máli hefur ákveðið fordæmisgildi hvað varðar skilgreiningu á því hvenær vöktun telst vera viðvarandi. Með tímanum kann að vera að fordæmunum fjölgi og að skýrari lína mótist hvað þetta varðar,“ segir Persónuvernd. Þá tekur stofnunin fram að hún hafi með úrskurðinum ekki tekið afstöðu til verndar heimildarmanna fjölmiðla heldur hafi niðurstaða úrskurðarins „mótast af þeim atvikum sem uppi voru í málinu.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV