
Bar að upplýsa um rétt til barnalífeyris
Í áliti umboðsmanns Alþingis segir að konan hafi í gegnum árin verið í samskiptum við Tryggingastofnun og því hafi þær upplýsingar legið fyrir innan stofnunarinnar, frá árinu 2008, að konan ætti barn. Henni voru greiddar annars konar greiðslur frá Tryggingastofnun árið 2008 en hún var ekki upplýst um rétt sinn til barnalífeyris. Allar nauðsynlegar upplýsingar hafi því verið til staðar hjá stofnuninni til þess að unnt væri að afgreiða barnalífeyri henni til handa, segir í áliti umboðsmanns Alþingis.
Ekki heimilt að greiða meira en tvö ár aftur í tímann
Úrskurðarnefnd velferðarmála og félagsmálaráðuneyti komust einnig að þeirri niðurstöðu að Tryggingastofnun hafi borið að upplýsa konuna um rétt sinn. Úrskurðarnefndin komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að ekki væri lagaheimild til að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn bærist Tryggingastofnun.
Tilmæli til TR um að rétta hlut konunnar
Þeim tilmælum hefur verið beint til Tryggingastofnunar að taka málið til athugunar og setja það í nauðsynlegan farveg til að rétta hlut konunnar til samræmis við þá afstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála og ráðuneytis um að tilefni hafi verið til þess að Tryggingastofnun myndi leiðbeina henni frá þeim tíma sem hún hefði getað sótt um barnalífeyri.