Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Banna námskeið sem eru sögð lækna samkynhneigð

15.06.2019 - 19:37
Mynd: EPA / EPA
Heilbrigðisráðherra Þýskalands talar nú fyrir nýrri lagasetningu sem myndi banna námskeið sem eru sögð lækna samkynhneigð. Nú eru 25 ár síðan bann við samkynhneigð var afnumið úr þýskum lögum. Fyrir tveimur árum öðluðust samkynhneigðir þar í landi sömu réttindi og aðrir til að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Þar fyrirfinnst þó enn sú skoðun að samkynhneigð sé hægt að lækna. Það þekkir Bastian Melcher af eigin raun. Hann var alinn upp í kristnum söfnuði og sendur í meðferð við samkynhneigð.

„Svo sagðist hann sjá stóran svartan brodd vaxa út úr bakinu á mér. Að þetta væri stór og vondur púki sem bæri ábyrgð á samkynhneigð,“ segir Bastian. Hann er einn stofnenda baráttuhóps sem vill láta banna slíka meðferð í Þýskalandi.

Peer Briken, læknir við háskólasjúkrahúsið í Hamburg er einn þeirra sem hefur tjáð sig um málið. „Öll málsmetandi fagfélög lækna hafa lýst yfir með skýrum hætti að samkynhneigð sé ekki röskun eða sjúkdómur. Frá sjónarhóli lækna eða sálfræðinga er því alls ekkert sem kallar á meðferð af neinu tagi,“ segir hann.

Heilbrigðisráðherra Þýskalands talar nú fyrir lagasetningu sem bannar viðlíka meðferð. „Þess vegna tel ég að við þurfum skýr merki frá ríkinu og þar með í löggjöf landsins um að verja skuli hinsegin fólk fyrir sjúkdómavæðingu, mismunun, fordæmingu og þjáningum almennt.“

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV