Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Banna allar heimsóknir á Landspítala

06.03.2020 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landspítalinn verður lokaður gestum allan sólarhringinn frá klukkan 17 í dag og á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir að minnsta kosti, að sögn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra Landspítalans. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi farsóttarnefndar Landspítala í hádeginu. 

Lokunin nær til allra starfsstöðva Landspítalans, þar með talið Landspítalans í Fossvogi, á Hringbraut, Vífilsstaða, Grensáss, Landakots og Klepps. Hún hefur í för með sér að allar deildir verða læstar, bráðamóttaka þar með talin. Þá mega gestir ekki hitta sjúklinga á göngum spítalans. Heimsóknir verða ekki leyfðar nema í mjög sérstökum tilvikum.  

„Þá erum við að hugsa til dæmis um ef einhver á aðstandanda sem er að kveðja og sömuleiðis ef það eru foreldrar með börn og slíkt. Þetta þarf að vera fólk sem er í mjög viðkvæmri stöðu, “ segir Anna.

Hún segir að skijanlega verði lokunin afar íþyngjandi fyrir alla en aðgerðirnar séu nauðsynlegar. Þetta sé gert til að vernda viðkvæma hópa á spítalanum og koma í veg fyrir að smit berist til þeirra. 

Hjúkrunarheimili banna einnig gestagang

Grund hefur einnig bannað allar heimsóknir. Þetta kemur fram í tölvupósti sem sendur var aðstandendum nú fyrir stundu. Þeim er bent á að hringja í viðkomandi deild og fá upplýsingar. 

Heimsóknarbann er einnig í gildi á hjúkrunarheimilunum Seltjörn á Seltjarnarnesi og í Sunnuhlíð í Kópavogi. Samkvæmt heimildum fréttastofu munu flest hjúkrunarheimili grípa til sambærilegra ráðstafana á allra næstu dögum. 

 

 

Fréttin var uppfærð klukkan 17:23

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Anna Sigrún Baldursdóttir
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV