Bandarískum ferðamönnum fækkaði um 35%

25.09.2019 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Tvisvar sinnum áður hafa komið fleiri ferðamenn til landsins yfir sumartímann en á því sumri sem nýliðið er. Ferðamönnum frá Norður-Ameríku og Bretlandi hefur fækkað. Aftur á móti hefur ferðamönnum frá Asíu fjölgað og fjöldinn frá Mið- og Suður-Evrópu var nánast sá sami í ár og í fyrra. Þetta kemur fram í ferðaþjónustutölum sumarsins frá Ferðamálastofu.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í hópi ferðamanna í sumar, þrátt fyrir að þeim hafi fækkað. 188.552 Bandaríkjamenn komu til landsins í sumar, sem er 35,7 prósentum færri en í fyrrasumar. Þjóðverjar eru næst fjölmennastir, 57.148. Þýskum ferðamönnum hefur fækkað um 2,8 prósent á milli ára.

Ferðamenn dvöldu að meðaltali 7,8 nætur hér á landi í sumar. Það er heldur lengri tími en í fyrra. Ferðamenn frá Mið- og Suður-Evrópu höfðu lengsta viðdvöl.

Flestir ferðamenn heimsóttu höfuðborgarsvæðið, 89 prósent. 81 prósent heimsótti Suðurland, 38 prósent Austurland, 16 prósent Vestfirði, 61 prósent Reykjanesið, 57 prósent Vesturland og 42 prósent Norðurland, samkvæmt tölum Ferðamálastofu.

Ferðamönnum frá Rússlandi fjölgaði um 33,5 prósent, sé miðað við fjöldann í fyrra. Þá fjölgaði ferðamönnum frá Indlandi töluvert, eða um 12,4 prósent og sömuleiðis frá Kína, um 11,5 prósent.

 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi