Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Bandaríska sendiráðið: Stöðugar viðræður

09.02.2016 - 21:27
An aerial view of the ramp areas and facilities of the 57th Fighter Interceptor Squadron, with other facilities in the background.
Loftmynd af varnarliðssvæðinu frá árinu 1982. Mynd: Michael E Daniels - Film/wikmedia
Bandarísk og íslensk stjórnvöld hafa átt í stöðugum viðræðum um flugstöðina í Keflavík. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem bandaríska sendiráðið á Íslandi gaf út í kvöld, í ljósi frétta um að Bandaríkjaher sé að snúa aftur til Íslands.

Fréttastofa leitaði í kvöld viðbragða bandaríska sendiráðsins við tíðindum þess efnis að Bandaríkjaher ætli að snúa aftur og hafa tímabundna aðstöðu á Íslandi. Sendiráðið vildi ekki staðfesta þessar fréttir en lét eftirfarandi yfirlýsingu duga:

„Bandaríkjamenn og Íslendingar eru nánir bandamenn innan NATO og eru stöðugt að endurmeta ástand öryggismála í Evrópu og um heim allan. Það mat er byggt á síbreytilegum aðstæðum. Stöðugar viðræður eiga sér að sjálfsögðu stað á milli bandarískra og íslenskra stjórnvalda um flugstöðina í Keflavík.“

Þær upplýsingar fengust frá sendiráðinu að Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, ætlaði ekki að tjá sig um málið að svo stöddu.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV