Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkjamönnum sagt að forða sér frá Írak

03.01.2020 - 08:50
Mynd: EPA-EFE / Iraq's Security Media Cell
Sendiráð Bandaríkjanna í Írak hvetur alla bandaríska ríkisborgara til að forða sér frá landinu þegar í stað. Hátt settur íranskur hershöfðingi féll í nótt í loftárás Bandaríkjahers á skotmark í grennd við flugvöllinn í Bagdad. Íranar og írakskar sveitir hliðhollar þeim hóta grimmilegum hefndum.

Qasem Soleimani hershöfðingi, æðsti yfirmaður Quds, sérsveitar byltingarvarðliðs Íranshers, og sex til viðbótar létu lífið í loftárásinni í nótt. Ali Khameinei erkiklerkur hét því þegar fregnir bárust af árásinni að hefna hershöfðingjans, trúnaðarvinar síns, af fullum þunga. Hasan Rouhani, forseti Írans, tók í sama streng. Hann kvað það hlutverk frjálsra þjóða í Miðausturlöndum að taka höndum saman og hefna falls Soleimanis.

Hashed al-Shaabi, vopnuðum sveitum í Írak sem njóta stuðnings Írana, hefur verið skipað að vera í viðbragðsstöðu. Írakski sítaklerkurinn Moqtada al-Sadr tilkynnti á Twitter í morgun að hann hygðist virkja að nýju Mahdiher sinn, sem barðist hatrammlega gegn Bandaríkjaher í Írak á árum áður.

Írakskir stjórnarandstæðingar fögnuðu því aftur á móti á götum úti að Qasem Soleimani hefði verið felldur. Það væri hefnd almættisins fyrir þau hundruð úr þeirra hópi sem hefðu látið lífið að undanförnu. Stjórnarandstæðingar saka vopnaðar sveitir, hliðhollar Írönum, um ofbeldisverk gegn þeim.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins hvatti Írana og þó sér í lagi Bandaíkjamenn til stillingar. Nú gilti að aðhafast ekkert sem yki enn frekar á spennu í Miðausturlöndum. Stjórnvöld í Rússlandi segja ljóst að ástandið í heimshlutanum sé að færast til verri vegar.

Nancy Pelosi, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, kveðst í yfirlýsingu óttast að atburðir næturinnar eigi eftir að valda því að ofbeldi eigi eftir að aukast. Bandaríkin og aðrar þjóðir heims geti ekki leyft spennunni að aukast upp að því marki að ekki verði aftur snúið.