Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkjamenn flýja frá Írak

03.01.2020 - 14:31
epa06691910 An Iraqi oil worker walks at the al-Siba Gas Field, 30kms south-east of Basra city, southern Iraq, 25 April 2018. The al-Siba field is the first field in Iraq for producing natural gas, which is being developed by Kuwait Energy company.  EPA-EFE/HAIDER AL-ASSADEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarískir ríkisborgarar í Írak búa sig til brottfarar eftir að utanríkisráðuneytið í Washington og sendiráð Bandaríkjanna í Bagdad skoruðu á þá að forða sér. Tugir starfsmanna við olíuvinnslustöð í Basra eru til dæmis á förum, að því er olíumálaráðuneytið í Bagdad greindi frá í dag. Brotthvarf þeirra á þó ekki að hafa áhrif á vinnsluna.

Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði í dag, eftir að fréttir bárust af því að Bandaríkjaher hefði orðið íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani að bana. Verð á tunnu af hráolíu úr norðursjó hækkaði um 4,5 prósent og létt bandarísk hráolía hækkaði um 4,1 prósent.

Íranar hafa hótað að hefna hershöfðingjans. Hugsanlegt er talið að það verði gert meðal annars með því að ráðast á olíuvinnslustöðvar í Miðausturlöndum.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV