Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bandaríkjamenn báðu Ragnar að skrifa glaðlegri endi

Mynd: RÚV / RÚV

Bandaríkjamenn báðu Ragnar að skrifa glaðlegri endi

06.12.2019 - 09:30

Höfundar

Bækur glæpasagnahöfundarins Ragnars Jónassonar hafa notið mikilla vinsælda bæði á Íslandi og erlendis. Nýverið náðist sá áfangi á ferli Ragnars að milljónasta eintakið af bókum hans seldist í Eymundsson en hann hefur verið mjög iðinn síðustu árin. „Þú getur ekki ímyndað þér hvað það eru margar bækur í kollinum á mér,“ segir hann.

Milljónasta eintakið af bókum Ragnars Jónassonar seldist í Eymundsson í síðustu viku. Það var eintak af nýjustu bók hans, Hvítadauða, sem fjallar um ungan afbrotafræðing sem vinnur lokaritgerð um dauða tveggja starfsmanna á berklahæli rétt fyrir utan Akureyri árið 1983. 

Ótrúlegt ævintýri að kynna bækurnar erlendis

Ástæðuna fyrir gífurlegri sölu bóka Ragnars má meðal annars rekja til vinsælda höfundarins í Frakklandi en verk hans hafa selst sérstaklega vel þar í landi ásamt því að vera þýdd á hátt í þriðja tug tungumála. „Það er alltaf mjög skemmtilegt í hvert sinn sem maður fær bókina sína á öðru tungumáli í hendurnar,“ sagði Ragnar í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Á dögunum fékk hann meðal annars eintak af bók sinni á katalónsku senda í pósti. Hann á einnig eintök af bókum sínum á meðal annars japönsku og kóresku sem hann heldur mikið upp á. „Þetta er ótrúlegt ævintýri,“ segir Ragnar sem fylgir bókum sínum reglulega eftir erlendis. „Ég hef reyndar ekki farið til Kóreu eða Japan en mig langar mjög mikið að gera það. Þetta eru annars Frakkland, Bretland og Skandinavía sem maður er mest að sinna.“

Lagar söguna ekki að erlendum markaði

Landvinningar íslenskra listamanna á erlendri grundu eru engin nýlunda. Íslenskir rithöfundar, myndlistar-, tónlistar- og kvikmyndagerðamenn hafa átt mikilli velgengni að fagna utan landssteinanna undanfarið og unnið til alþjóðlegra verðlauna. Ragnar segist þó ekki hafa erlendan markað í huga þegar hann skrifar bækur sínar og lagar lýsingar sínar ekki að mögulegum erlendum lesendum. Hann gerir engar breytingar til að kynda undir áhuga á landi og þjóð hjá þeim sem þekkja ekki til, eins og stundum er gert í kvikmyndum þegar drónaskotum af hrjóstrugu landslagi, loðnum hestum og illa rökuðum Íslendingum í slitnum lopapeysum er bætt við hér og þar. Hann segist þó í samráði við erlendar útgáfur hafa gert smávægilegar breytingar á frásögninni í gegnum tíðina. 

„Stundum þegar bækurnar fara í gegnum útgáfur og útgefendur höfum við bætt einhverju við til að skýra hluti í þýðingu sem varða venjur og hefðir á Íslandi. Ég hef þó ekki gert neinar grundvallarbreytingar,“ segir hann en hugsar sig um og viðurkennir að hafa eitt sinn verið beðinn um að gera nokkuð stórvægilegar breytingar. „Það var fyrir bókaútgáfu í Bandaríkjunum, þetta var bókin Dimma en endirinn á henni er frekar óvenjulegur,“ glottir höfundurinn. „Þeir vildu breyta honum og hafa hann aðeins glaðlegri,“ segir hann og bætir því við að hann hafi neitað þeirri bón strax.

EM í Frakklandi jók áhuga á Íslandi

Sem fyrr segir njóta bækur Ragnars mikilla vinsælda í Frakklandi. Hann segir hógvær að það sé góð spurning hver ástæðan fyrir því sé. „Maður er heppinn með útgefanda, þau settu strax mikið púður í að kynna bækurnar og sendu svo blaðamenn til Íslands svo markaðssetningin hefur gengið vel,“ segir hann en nefnir einnig eina óvænta tengingu sem gæti skýrt velgengnina að einhverju leyti. „Kannski spilar inn í að fyrsta bókin kom út vorið 2016 í Frakklandi rétt áður en Ísland sló í gegn á EM í Frakklandi. Ísland var því ofarlega í huga margra. En það er engin leið til að útskýra þetta.“

Aðrir lögfræðingar og bankastarfsmenn rata ekki í bækurnar

Ragnar sem hefur verið iðinn við kolann síðustu árin er þó ekki einn af þeim höfundum sem helgar líf sitt alfarið skrifum. Hann er nefnilega lögfræðingur og hann starfar í Arion banka. Ætli starfið í bankanum gefi innblástur fyrir glæpasögur? „Nei, þetta er eins ólíkt og hægt er. Arion banki er mjög skemmtilegur vinnustaður, það hentar mér að hitta fólk og hafa nóg að gera. Það eru líka ákveðin takmörk fyrir mig fyrir hvað ég get skrifað mikið á hverjum degi, ég gæti ekki setið allan daginn og skrifað bók. En þetta er alveg aðskilið, það eru engir lögfræðingar eða neitt svoleiðis í mínum bókum,“ glottir hann en bætir við: „Ég stel samt oft nöfnum vina minna og set í bækurnar.“

Áður en Ragnar hefst handa við nýja bók er hann búinn að teikna upp fléttuna í hausnum á sér frá byrjun til enda. „Ég byrja aldrei á bók fyrr en ég veit hvernig hún endar og innblásturinn kemur frá ýmsum ólíkum áttum. Svo er maður tilbúinn að skrifa. Annars eru svo margar bækur í einu í kollinum á mér að þú getur ekki einu sinni ímyndað þér,“ segir hann að lokum.

Rætt var við Ragnar Jónasson í Síðdegisútvarpinu.