Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkjaher byggir fyrir milljarða á Íslandi

21.06.2019 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Bandaríkjaher áformar framkvæmdir við hernaðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli fyrir um sjö milljarða króna. Þingmaður Vinstri grænna segir að sér finnist þetta glatað.

Samkvæmt fjárhagsáætlun bandaríska flughersins fyrir 2020 verður 57 milljónum dollara varið til framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, eða sem nemur um sjö milljörðum króna. Átján milljónir dollara fara til uppbyggingar á svæði til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopnabúnaðar, sjö milljónir dollara fara til uppbyggingar færanlegrar aðstöðu fyrir herlið og 32 milljónir dollara fara í stækkun flughlaðs fyrir herinn.

Markmiðið er samkvæmt áætlun hersins um að búa svo um hnútana að hægt verði að taka við allt að tveimur orrustuflugsveitum hvenær sólarhringsins sem er. Í hverri flugsveit eru jafnan 18 til 24 orrustuflugvélar. 

Alþingi samþykkti í gær að færa 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar til útgjalda vegna viðhalds mannvirkja Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli. Tveir þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu málsins, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson. „Umfram allt var þetta leið til að sýna óánægju með þessa ákvörðun,“ segir Andrés Ingi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að þó svo að Bandaríkjamenn séu að fjárfesta í varnarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli, sé þörf á því að Ísland sinni viðhaldi á mannvirkjum NATO á Íslandi. „Bandaríkjamenn eru að fjárfesta sem nemur sjö milljörðum króna á næstu árum, en það er ýmislegt fleira sem að okkur snýr. Þetta er það sem er kallað varnarmannvirki en snýr mjög að öryggismálum okkar, meðal annars flugöryggi, þannig að það er forgangsmál að sinna þessum hlutum,“ segir Guðlaugur Þór.

Hermenn daglega á landinu undanfarin þrjú ár

Andrés Ingi bendir á að herinn hafi undanfarið aukið mjög viðveru sína hérlendis. „Þetta eru framkvæmdir sem hafa verið í pípunum í dálítinn tíma og á síðustu árum hefur viðbúnaður NATO á vellinum stóraukist, það hafa verið hermenn að meðaltali tugum saman á hverjum einasta degi síðustu þrjú ár,“ segir Andrés Ingi. „Og til að sinna kafbátaleitarflugi þá hefur Bandaríkjaher viljað bæta þarna aðstöðu, og þetta er greinilega farið að hafa þau áhrif að nú þarf íslenska ríkið að leggja til pening líka til að bæta þessa aðstöðu. Ég vil meina að þar með séum við komin einu skrefi of nálægt því að vera komin með herstöð hérna aftur.“

En hvað finnst honum um að þessi auknu umsvif eigi sér stað þegar Vinstri græn sitja við völd? „Mér finnst þetta bara algjörlega glatað,“ segir Andrés Ingi.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV