Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bandaríkin sýni norðurslóðum aukinn áhuga

16.08.2019 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Víðir Hauksson - RÚV
Koma varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, til Íslands endurspeglar aukinn áhuga Bandaríkjanna á Norðurslóðum. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún segir alþjóðasamskipti ekki snúast um að vera sammála.

Koma Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna hefur verið harðlega gagnrýnd. Hann hefur boðað komu sína hingað til lands í byrjun september. Hernaðarlegt mikilvægi Íslands verður meðal annars til umræðu og stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu ríkisstjórn fyrir að upplýsa ekki um komu hans fyrr.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði málið jafnframt erfitt fyrir flokkinn. Katrín gefur ekki mikið fyrir gagnrýnina og segir alþjóðleg samskipti ekki snúast um að vera sammála. „Við auðvitað eigum í miklum samskipti við bandaríkin þannig það er ósköp eðlilegt að ráðamenn þessara þjóða hittist og eigi samskipti. Hins vegar snúast alþjóðleg samskipti ekki um að fólk sé nákvæmlega sammála um öll mál og ég hygg að það sé ekki svo í þessu tilfelli. Svo er það auðvitað ljóst að Bandaríkin hafa verið að sýna þessu landsvæði, norðurslóðum og norðurhöfum aukinn áhuga og við fengum heimsókn utanríkisráðherra bandaríkjanna fyrr á þessu ári þannig það má ljóst vera að það er aukinn áhugi.“

Katrín segist hafa rætt sérstaklega við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um vígvæðingu á norðurslóðum og mikilvægi þess að norðurslóðir eigi að vera lágspennusvæði þegar kemur að samskiptum ríkja. Mike Pence hefur hins vegar verið gagnrýndur fyrir afstöðu sína í garð samkynhneigðs fólks. Samtökin '78 hafa sagt komu hans vanvirðingu við samfélag samkynhneigðra. 

„Ísland og íslenska ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að koma íslandi aftur í fremstu röð í réttindum hinsegin fólks og ný lög um kynrænt sjálfræði eru til marks um það að við stefnum þangað. Nú standa auðvitað yfir hinsegin dagar hér í Reykjavík og það liggur fyrir að ég deili ekki skoðunum á þeim málaflokki með varaforseta bandaríkjanna og komi þau mál þá vænti ég þess að íslenskir ráðamenn muni fara yfir stefnu íslenskra stjórnvalda í þeim efnum sem er algjörlega skýr.“ segir Katrín. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV