Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bandaríkin loka á flug frá Evrópu í 30 daga

12.03.2020 - 01:06
epa08287723 US President Donald J. Trump addresses the nation from the Oval Office about the widening coronavirus crisis, in Washington, DC, USA, 11 March 2020. President Trump announced the suspension of travel from the USA to Europe for the next 30 days. The travel ban excludes the United Kingdom. There are 1,135 confirmed cases of coronavirus infection in the USA, and 38 confirmed fatalities.  EPA-EFE/Doug Mills / POOL
 Mynd: EPA-EFE - NEW YORK TIMES / POOL
Algjört bann verður við ferðum frá Evrópu til Bandaríkjanna í 30 daga frá og með miðnætti á föstudag vegna COVID-19 veikinnar. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi í kvöld. Bretland verður undanskilið þessum aðgerðum forsetans, sem hann sagði harðar en nauðsynlegar. Rúmlega 1.100 tilfelli COVID-19 hafa greinst í Bandaríkjunum og 38 eru látnir af völdum sjúkdómsins.

Trump sagði Evrópuríki eiga í erfiðleikum með að takast á við veiruna þar sem þau hafi ekki lokað á flug frá Kína nógu snemma. COVID-19 sjúkdómurinn á rætur sínar að rekja til Wuhan í Kína. Trump sagði bandarísk yfirvöld vera að standa sig betur við að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur sjúkdómnum, en smit hafi borist til Bandaríkjanna frá evrópskum ferðamönnum. Trump sagði einnig í ávarpinu að bannið ætti bæði við um ferðir fólks og viðskipti við Evrópuríki, en leiðrétti það síðar á Twitter og sagði bannið aðeins eiga við um fólk.

Trump beindi þeim tilmælum til eldra fólks að reyna að forðast ferðalög. Hann sagði eldra fólk verða að fara varlega, og kallaði eftir því að dvalarheimili lokuðu á aðrar heimsóknir en frá heilbrigðisþjónustum. Þá ítrekaði hann að hættan af völdum COVID-19 sé verulega lítil fyrir mikinn meirihluta Bandaríkjamanna. 

Bandaríkjaforseti sagði enga hættu á fjármálakreppu. Þetta væri vandamál sem eigi eftir að standa yfir í stuttan tíma. Hann kynnti áætlanir um neyðaraðgerðir til þess að aðstoða starfsmenn sem verða af launum við að smitast. Eins sagðist hann búinn að biðja þingið um að losa um 50 milljarða bandaríkjadala í lánasjóð fyrir smærri fyrirtæki. Þá kallaði forsetinn eftir tafarlausum niðurskurði á tekjuskatti.

Á vef heimavarnarráðuneytisins segir að bannið eigi við um Schengen-ríki. Bannið á ekki við um þá sem eru með lögheimili í Bandaríkjunum eða ættingja bandarískra ríkisborgara. Bannið á hins vegar við um alla aðra sem hafa verið í einhverju Schengen-landanna fjórtán dögum fyrir ferð sína til Bandaríkjanna. Schengen-ríkin eru: Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi svo frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem Bandaríkjamenn eru hvattir til þess að endurskoða áform sín um utanlandsferðir. Mörk ríki séu farin að grípa til aðgerða á borð við sóttkví.