Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Bananar á Kárahnjúkum

Mynd: Anton Brink / Ruv.is

Bananar á Kárahnjúkum

14.04.2018 - 14:35

Höfundar

Gróðurhús fyrir banana á hálendi Íslands, ísbrú yfir jökulár og álbátar á uppistöðulóni á Kárahnjúkum eru meðal hugmynda Garðars Eyjólfssonar vöruhönnuðar um nýtingu álframleiðslu á Íslandi. Hann er meðal viðmælenda í fimmta þætti hugmyndasögu fullveldisins, Hundrað ár, dagur ei meir.

Í fyrri þætti af tveimur sem bera nafnið Bananar á Kárahnjúkum og tilheyra þáttaröðinni Hundrað ár, dagur ei meir: Hugmyndasaga fullveldisins er fjallað um stöðu Íslands á 20. öld sem smáríkis sem þarf að hafa sig allt við til að sporna gegn erlendum áhrifum.

Hugtakið "bananalýðveldi", hefur gjarnan verið notað til að lýsa ríkjum sem illa geta spornað við áhrifum erlendra aðila og orð eins og nýlenda, hjálenda og dullenda eru stundum færð til bókar í tilraunum til að ramma inn stöðu Íslands í heiminum. Þessir þræðir verða raktir nánar í seinni þættinum sem verður ekki á dagskrá að viku liðinni heldur síðar í þessari þáttaröð. Í þessum þætti verður fyrst og fremst staldrað við þá staðreynd að bygging álvers á Íslandi árið 1970, ásamt öðrum stóriðjuframkvæmdum olli miklum deilum, einmitt fyrir þær sakir að eignarhaldið var erlent.

Álverið í Straumsvík hóf tilraunastarfsemi árið 1969 og markaði þar með upphaf stóriðjustarfsemi á Íslandi. Á þeim tíma snerist umræða um áhrif stóriðju ekki síst um ítök erlendra aðila, og þó náttúruverndarumræða hafi sannarlega spilað nokkuð hlutverk, þá var bygging álversins ekki síst fullveldisspurning, spurning um hvar valdið - í þessu tilfelli efnahagsvaldið - lá.

Eitt af því sem hefur orkað tvímælis í tengslum við álframleiðslu á Íslandi er sú staðreynd að lítil nýting á sér stað á þeim afurðum sem framleiddar eru. Guðmundur Jónsson sagnfræðingur bendir á það í seinni þættinum sem hljóma mun síðar í þáttaröðinni að eitt af því sem einkenni fyrrverandi nýlendur víða í heiminum sé sú staðreynd að þær festast í hlutverki hráefnaframleiðenda. Garðar Eyjólfsson, vöruhönnuður sem rætt er við í þættinum, telur undarlegt að Íslendingar skuli framleiða ál, til þess eins að flytja það úr landi og ræðir í þættinum framúrstefnulegar hugmyndir um notkun á álinu. 

Í þættinum er farið í saumana á deilum um stóriðju á Íslandi, meðal annars með hliðsjón af skáldverki Jakobínu Sigurðardóttur, Snörunni og hljóma brot úr verkinu í þættinum í lestri Karls Guðmundssonar frá árinu 1970. Bókin var skrifuð árið 1968 og fangar með áhrifaríkum hætti ýmsa þætti þeirrar umræðu sem skapaðist í kringum stóriðjuframkvæmdir á þeim tíma, bæði í tengslum við álver í Straumsvík, en einnig varðandi byggingu kísiliðnaðar í Mývatnssveit. Ásta Kristín Benediktsdóttir, bókmenntafræðingur, segir frá verkinu og þýðingu þess í þættinum.

Þá ræða sagnfræðingarnir Guðmundur Jónsson og Unnur Birna Karlsdóttir um ýmsa þætti í umræðu um stóriðju sem snerta með einum eða öðrum hætti á fullveldishugmyndum Íslendinga. Allt frá árinu 1918 höfðu Íslendingar litið erlent eignarhald hornauga, og lengi fram eftir öldinni var erlendum aðilum haldið frá fjárfestingum í íslenskum auðlindum. Því markaði álversframkvæmdin á sjöunda áratugnum, með aðkomu svissneska fyrirtækisins Alusuisse, merkileg tímamót í sögu fullveldisins. 

Umfjöllun þáttarins varpar áhugaverðu ljósi á deilur um erlend áhrif og erlent eignarhald á Íslandi og er sem fyrr segir aðeins fyrri hluti stærri umfjöllunar um stöðu Íslands á 20. öld. Í síðari þættinum, sem hljóma mun síðar í þáttaröðinni verður fjallað um hugtökin nýlenda, dullenda og hjálenda í ljósi fullveldissögunnar, meðal annars út frá þeim samanburði við lönd sunnar í heiminum sem kristallast í hugtakinu "bananalýðveldi" og tæpt er á í þessum fyrri þætti með aðstoð Söru S. Öldudóttur, sýningarstjóra listahátíðarinnar Cycles.

Í þættinum ræðir Marteinn Sindri við Ástu Kristínu Benediktsdóttur, bókmenntafræðing, Garðar Eyjólfsson vöruhönnuð, Guðmund Jónsson sagnfræðing, Söru S. Öldudóttur sýningarstjóra og Unni Birnu Karlsdóttur sagnfræðing. Þar að auki hljóma lestrar Karls Guðmundssonar frá árinu 1970 úr skáldverki Jakobínu Sigurðardóttur, Snörunni.