Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ban Ki-moon fékk Arctic Circle-verðlaunin

08.10.2016 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið - RÚV
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, afhenti í dag Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, fyrstu Arctic Circle-verðlaunin. Ban hlýtur verðlaunin fyrir þá forystu sem hann hefur tekið í loftslagsmálum. Ólafur Ragnar segir í yfirlýsingu að Ban hafi sýnt ótrúlega stjórnvisku, hugrekki og framtíðarsýn þrátt fyrir þá miklu andstöðu sem loftslagmálin hafi mætt þegar hann tók við framkvæmdastjórastöðu SÞ á sínum tíma.

Ólafur segir í yfirlýsingu, sem birt er á vef ráðstefnunnar, að tilefnið fyrir afhendingu þessara verðlauna sé að heiðra Ban Ki-moon fyrir framlag hans til Parísar-samkomulagsins svokallaða. Ban fékk meðal annars afhent glerlistaverk eftir Sigrúnu Ólöfu Einarsdóttur og viðurkenningarskjal sem hafði verið bundið inn með laxaroði.

Ban Ki-moon sagði í ræðu sinni að þjóðarleiðtogar ættu skilið að deila þessum verðlaunum með honum. Parísar-samkomulagið hefði verið bylting en nú væri það stjórnmálamannanna að efna þau loforð sem þar voru gefin og styðja við bakið á þróunarríkjunum til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. 

Ban þakkaði Ólafi Ragnari, Lilju Alfreðsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir heimboðið en hátt í 400 fyrirlesarar hafa tekið þátt í ráðstefnunni í Hörpu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV