
Ballarin komin aftur til Íslands
Ballarin kom til landsins um helgina en ekki fæst uppgefið hverja hún hittir á meðan hún dvelur hér. Til stóð að hefja áætlunarflug milli Washington borgar í Bandaríkjunum og Keflavíkur í október en útséð er að það verður ekki. Talsmaður Ballarin, Gunnar Steinn Pálsson, segir að undirbúningurinn hafi af ýmsum ástæðum reynst tímafrekari en áætlað var, en horft sé til þess að hefja áætlunarflug innan nokkurra vikna frekar en mánaða.
Sem fyrr sagði ætlar hið nýja flugfélag að fljúga á milli Keflavíkur og Washington en markmiðið er svo að færa út kvíarnar og hefja áætlunarflug til meginlands Evrópu. Byrjað verði með tvær flugvélar í rekstri en þeim fjölgi svo í samræmi við eftirspurn. Planið er því að byrja smátt og verður áherslan í fyrstu á fraktflutninga í stað fólksflutninga, að sögn Gunnars Steins. Bendir hann á að Ballarin hafi umfangsmikla reynslu af fraktflutningum og því verður kappkostað að fylla vélarnar af fiski og öðrum varningum frekar en farþegum til að byrja með.