Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ballarin ætlar að hefja flug WOW air í október

06.09.2019 - 13:56
Mynd: RÚV / RÚV
Félagið US Aerospace Associates áformar að hefja flug milli Íslands og Dulles í Washington strax í næsta mánuði. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Michele Ballarin, stjórnarformaður fyrirtækisins, efndi til á Hótel Sögu klukkan hálf tvö í dag.

Ballarin kynnti þar kaup á tilteknum eignum úr þrotabúi WOW. Hún sagði að WOW væri gott vörumerki. Fyrirtækið stefni á farþegaflutninga en einnig vöruflutninga. Hún sjái tækifæri í flutningi á fiski frá Íslandi til Bandaríkjanna. 

Ballarin segist ætla að byrja með tvær flugvélar, fjölga fljótlega í fjórar en vera svo komin með 10 til 12 vélar næsta sumar. Vélum verði ekki fjölgað eftir það. 

Ballarin segir í samtali við fréttastofu að þær eignir sem keyptar eru séu meðal annars búningar og tölvubúnaður og ýmislegt tengt markaðssetningu flugfélagsins. Hún segir að starfað verði undir merkjum WOW. Ballarin segist ekki ætla að gefa upp hvað greitt sé fyrir eignirnar. 

Ballarin segir að Ísland verði aðalstarfsstöðin í Evrópu en aðalstarfsstöðin í Norður-Ameríku verði í Washington. Hún segir að nú sé verið að ræða til hvaða áfangastaða eigi að fljúga. Það verði svipaðir staðir og áður. 

Flugfélagið verður rekið á bandarísku leyfi til að byrja með. Það verður rekið i samstarfi við Íslendinga en Ballarin vill ekki segja hverjir íslenskir samstarfsmenn hennar eru. Ballarin segir að 85 milljónir bandaríkjadala, um 11 milljarðar króna, verði notaðar til að koma flugfélaginu á fót. Það sé skuldlaust og verði það áfram.  

Hún segir jafnframt að áformað sé að ráða íslenskt starfsfólk til flugfélagsins, enda sé íslenskur mannauður ein helsta náttúruauðlind Íslendinga. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV